Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

vextir og verðbólga.

175. mál
[17:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín hljóðar á þá vegu: Hver er að mati ráðherra helsta ástæðan fyrir því að Seðlabanki Íslands telur nauðsynlegt að vextir í krónuhagkerfi okkar þurfi að vera meira en fjórum sinnum hærri en vextir í danska krónuhagkerfinu til þess að vinna gegn sambærilegri verðbólgu? Evrópuríkin eru núna að ná aðeins meiri tökum á verðbólgunni sem fyrst og fremst er knúin áfram af miklum orkukostnaði og þegar við tökum þennan orkukostnað og síðan húsnæðiskostnaðinn hjá okkur út þá sjáum við að verðbólgan hjá okkur er enn þá á uppleið meðan verðbólgan í langflestum Evrópuríkjunum er á niðurleið. Samt er verið að kljást við svipaðar stærðir af verðbólgu. Við þurfum hins vegar allt að fjórum sinnum hærri vexti. En við sjáum það líka í umræðunni, m.a. í aðdraganda að fjárlagafrumvarpinu, að þá vöruðu m.a. aðilar vinnumarkaðarins og Seðlabanki mjög einarðlega við því að það væri aðhaldsleysi í ríkisfjármálum og það gæti haft á áhrif á m.a. útgjaldaþenslu sem myndi síðan orsaka það að verðbólguvöxturinn yrði meiri. Það hefur auðvitað gerst síðan. Auðvitað er það snúið fyrir hvern stjórnmálamann, sérstaklega í ríkisstjórn, að útskýra fyrir kjósendum að almenningur á endanum borgar brúsann af agaleysi við fjármálastjórn. Það er reyndin í dag þó að helsta fyrirstaðan til þess að taka á útgjaldaþenslunni sem nú er sé kannski samsetning ríkisstjórnarinnar, eins og við þekkjum. Við vitum að vextir og verðbólga og efnahagsumhverfið er samsett af þessum þremur leikendum sem eru ríkisstjórnin, Seðlabankinn og aðilar vinnumarkaðarins. Sumir segja að síðustu kjarasamningar hafi farið út fyrir rammann en ég efast um að það hafi legið sérstaklega að baki nýgerðum kjarasamningum þó að þanþolið sé vissulega spennt. Það sem stendur eftir er að seðlabankastjóri, eins og hann hefur sagt sjálfur, stendur svolítið einn í þessari baráttu. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir orðaði það skemmtilega í gær í viðtali á Sprengisandi, að hann sæi eiginlega einn um þriðju vaktina og ríkisstjórnin hefði skilið hann eftir.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra af hverju Seðlabankinn telur sig þurfa að verja krónuna með allt að fjórum sinnum hærri vöxtum en í Danmörku. Getur verið að það eigi rætur að rekja til þess sem er skoðun Gylfa Zoëga, hagfræðiprófessors sem sat í mörg ár í peningastefnunefndinni, en hann segir einfaldlega að krónan og tæki Seðlabankans nái bara til afmarkaðs hóps Íslendinga, þ.e. þeirra sem eru undir krónuhagkerfinu en svo eru aðrir eins og við vitum sem eru fyrir utan krónuhagkerfið? Vaxtahækkanir ríkissjóðs bitna ekki á þeim. Það má segja að við séum með ákveðinn krónuskatt á almenning meðan aðrir fá að lúta öðrum lögmálum. Hver er skoðun ráðherra á þessu?