Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

vextir og verðbólga.

175. mál
[17:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þessa spurningu. Þegar hún barst mér fyrst var sérstaklega spurt um vexti á Íslandi miðað við vexti í danska hagkerfinu, svona til upprifjunar, það hefur aðeins dregist að þessi fyrirspurn komist á dagskrá hér. Í fyrsta lagi vil ég bara þakka fyrir fyrirspurnina. Það skiptir máli að horfa á ramma peningastefnunnar í þessum tveimur löndum, Danmörku og Íslandi, þar sem Danmörk er auðvitað með fastgengisstefnu við evruna, vaxtastig í Danmörku er í raun ákvarðað af Seðlabanka Evrópu og efnahagsaðstæðum á evrusvæðinu þannig að verðbólguhorfur í Danmörku ráða kannski ekki mest um stefnuna heldur horfurnar á evrusvæðinu meðan við erum með sjálfstæðan seðlabanka sem horfir til þróunar hér á Íslandi. Ég held að það skipti máli varðandi það sem hv. þingmaður nefnir hér, að verðbólguþróunin sé ólík milli Íslands og evrusvæðisins, að hún er auðvitað líka ólík innan evrusvæðisins. Þar eru mismunandi tölur sem við getum bara séð þegar við skoðum Eurostat milli mánaða þar sem hægt hefur á verðbólgunni víða en annars staðar er hún í hæstu hæðum og allt upp í 20%, þannig að það er töluverður munur á. Það sem miklu skiptir í þessu er að hagvöxtur á evrusvæðinu í fyrra var um 3,5% og það hægði töluvert á vextinum á síðasta fjórðungi ársins á meðan á Íslandi var hagvöxtur í fyrra rúmlega 7%, sem var raunar umfram spár þeirra sem spáðu fyrir um þennan vöxt. Ef við tökum mark á spánum verður hagvöxtur á Íslandi áfram töluvert hærri en á evrusvæðinu. Áætlað er að laun á almennum markaði á evrusvæðinu hafi hækkað um u.þ.b. 3% á milli ára í fyrra en samsvarandi hækkun hér á landi var 8,6%. Staðan er því ólík, bæði hvað varðar launaþróun og hvað varðar í sjálfu sér umsvif í hagkerfinu.

Ef við förum bara yfir þetta allt saman þá má draga þá ályktun að hagvöxtur, verðbólga og launaþróun gefi tilefni til töluvert hærri vaxta á Íslandi án þess að ég vilji kveða upp dóm um það hvað séu eðlilegir vextir á hvoru svæði fyrir sig. Vextir Seðlabanka Evrópu hafa verið hækkaðir undanfarna mánuði og á síðasta fundi bankans, 2. febrúar sl., voru meginvextir hækkaðir í 3% og bankastjórnin boðaði að hún myndi aftur hækka vexti um hálft prósent á næsta fundi.

Ef horft er til lengri tíma þá er þetta auðvitað heilmikið hagfræðilegt úrlausnarefni sem við blasir og almennt gætir verulegrar tregðu þegar reynt er að ná fram verðstöðugleika eftir langt skeið mikillar og breytilegrar verðbólgu vegna þess að kjölfesta verðbólguvæntinga við slíkar aðstæður er veik. Það er ekki nema eðlilegt og þetta þekkjum við. Áhrif óstöðugs verðlags á Íslandi undanfarna áratugi birtast því enn í því að kjölfesta verðbólguvæntinga er minni en t.d. á evrusvæðinu og þar hafa t.d. langtímaverðbólguvæntingar orðið fyrir minni áhrifum af völdum mikilla verðhækkana af völdum orkukreppu en hérlendis, þannig að þetta er munur.

En mér finnst, kannski er ég að gera því skóna hér, að hv. þingmaður sé að velta upp möguleikanum á öðrum gjaldmiðli að einhverju leyti, þótt það sé ekki sagt beint. Að sjálfsögðu vitum við að þetta er í raun og veru ekki einangruð umræða um gjaldmiðlamál og peningastefnu. Við vitum alveg að því fylgir ákveðinn tilkostnaður að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil og sjálfstæða peningastefnu en við vitum líka að því fylgja fjölmargir kostir. Við heyrum það hins vegar nú þegar vextir fara upp að þá hefst aftur umræða um mögulega upptöku á nýjum gjaldmiðli. Ég held nú raunar, hvort sem litið er til skýrslu Seðlabankans frá árinu 2012 þegar við ræddum þessi mál hvað mest eða til skýrslunnar frá 2018 um framtíð íslenskrar peningastefnu, að niðurstaðan sé sú að raunhæfir valkostir okkar eru tveir. Það er annars vegar að viðhalda sjálfstæðri peningastefnu og þjóðhagsvarúðartækjum sem við höfum auðvitað fjölgað í okkar regluverki frá því sem var fyrir hrun eða að ganga í Evrópusambandið og þar með Evrópska myntbandalagið og það kallar auðvitað á miklu meiri og umfangsmeiri pólitíska ákvörðun og umræðu en eingöngu hvað varðar gjaldmiðilinn og valkosti í þeim efnum. Sú ákvörðun snýst ekki bara um peningastefnu heldur er miklu stærra pólitískt mál. Þarna er ég kannski gera einhverju skóna sem hv. þingmaður spurði alls ekkert um en mér fannst nú samt rétt að nefna.

Ég vil segja það hér að ég hef trú á því að verðbólgan muni fara niður. Ég held að við séum komin á þann stað að við munum sjá hana hjaðna á árinu. (Forseti hringir.) Ég held að við séum að mörgu leyti í góðri stöðu með þessi miklu umsvif í hagkerfinu, þetta öfluga — (Forseti hringir.) ja, nú er ég komin langt fram yfir tímann, fyrirgefið, frú forseti. Ég vil bara segja það og ég get fullvissað hv. þingmann og aðra hv. þingmenn hér um að ríkisstjórnin mun beita ríkisfjármálunum til þess að styðja við Seðlabankann að ná þeim markmiðum.