Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

þróunarsamvinna.

492. mál
[18:20]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur kærlega fyrir frumkvæðið. Þetta málefni stendur mér mjög nærri eftir starf mitt í utanríkisráðuneytinu þar sem ég fékk að sjá með eigin augum hvað íslensk þróunarsamvinna skiptir gríðarlega miklu máli. Það verður áhugavert að fara yfir jafningjarýni DAC sem von er á. En mig langar til að staldra aðeins við orð hæstv. ráðherra um mikilvægi þess að við nýtum fjármuni okkar sem við leggjum til þróunarsamvinnu eins vel og kostur er og hvetja hana til dáða í þeim efnum. Þar eigum við að einblína á styrkleika okkar og halda áfram að hvetja atvinnulífið til þátttöku, bæði í verkefnum og til fjárfestinga eins og þróunarríkin kalla svo ákaft eftir.