Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

þróunarsamvinna.

492. mál
[18:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég er sammála því sem kemur hér fram um mikilvægi frjálsra félagasamtaka og það er mikilvægt að við bæði lyftum þeim og hjálpum þeim að hjálpa öðrum vegna þess að þau eru heilt yfir gríðarlega öflugt verkfæri fyrir stjórnvöld, líka til að koma fjármagni með góðum hætti, byggt á reynslu, þekkingu og tengslum og öllu slíku, inn í okkar þróunarsamvinnu.

Ég tek líka undir með þeim sem hafa nefnt hérna atvinnulífið. Það er gríðarlega mikilvægt að atvinnulífið sé hluti af þessum verkefnum, bæði vegna þess að markmiðið hlýtur að vera að gera sem flest svæði sjálfbær á allan hátt og þá líka efnahagslega sjálfbær. Og það þýðir að það þarf fjárfestingar. Í mínum huga er það líka hlutur sem atvinnulífið á að finna hjá sjálfu sér að það eigi að gera. Og hér höfum við náttúrlega dæmi á sviði orkumála í beinum verkefnum en líka til að mynda í lagalegri aðstoð þar sem við höfum reynslu í þessum geira og erum með lögfræðinga sem eru að aðstoða ríki við að tryggja einmitt rétt sinn í þeirri auðlindanýtingu sem fram undan er, tryggja það að ramminn sé til staðar þannig að þegar fjárfestingar koma — segjum að þær séu erlendar fjárfestingar í atvinnuuppbyggingu, sem er gott ef vel gengur — þá sé búið að búa til regluverkið, bæði til að koma í veg fyrir spillingu en líka til að tryggja það að íbúar þessara landa njóti góðs af þessari nýtingu, uppbyggingu og sjálfbærri framtíð.

Það skiptir máli fyrir okkur að við séum með svigrúm til þess að bregðast við eins og við gátum gert í Malaví vegna Freddy og það skiptir máli fyrir okkur að geta almennt brugðist hratt við. En það er rétt sem hv. þingmaður nefnir þegar hún segist gera ráð fyrir því að ekki verði um byltingarkenndar breytingar að ræða. (Forseti hringir.) Við sjáum það ekki fyrir okkur en viljum gjarnan fylgja því sem kemur út úr rýnivinnunni, jafningjarýninni.