Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

samkeppnishæfni Íslands í alþjóðaviðskiptum og fjárfesting erlendra aðila.

176. mál
[18:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Samkeppnishæfni er eitthvað sem við verðum að hafa hugfast. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að ég og hæstv. ráðherra erum kannski ekki endilega sammála um aðferðafræðina til að tryggja samkeppnishæfni. Ég virði það að hæstv. ráðherra viðurkenni að gjaldmiðill okkar sé örmynt og það séu ákveðnar flækjur en styðji engu að síður krónuna, á meðan ég vil fara aðrar leiðir til að auka samkeppnishæfnina. Ég er ekki í þessu tilviki að spyrja beint um krónuna og gjaldmiðlahagkerfið okkar, heldur um þær niðurstöður sem komu fram í viðamikilli könnun IMD-háskólans í Sviss. Af því að samkeppnishæfni okkar á að vera okkur hugleikin og alltaf til sífelldrar umræðu, verandi eyja, þá eigum við mjög mikið undir því að standast samanburð við aðra og megum þess vegna aldrei sofna á verðinum.

Þessi ítarlega könnun frá IMD-háskólanum í Sviss á samkeppnishæfni 63 ríkja leiddi í ljós ágætismeðaltal fyrir Ísland. Við erum í 16. sæti, milli Þýskalands og Kína, en aftur á móti erum við töluvert neðan en önnur Norðurlönd sem við viljum þó alla jafna helst bera okkur saman við þegar kemur að lífskjörum. En svo þegar rýnt er í tölurnar í þessari könnun og einstaka liði, þá sést að við höfum á hinn bóginn dregist aftur úr öðrum þjóðum, og það nokkuð verulega, síðustu tíu ár þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu. Þar er Ísland í 58. sæti og hefur fallið niður um 12 sæti. Við höfum bætt okkur lítillega þegar kemur að landsframleiðslu á hvern vinnandi mann og atvinnustig er nokkuð hærra, en við samanburð á verðlagi er Ísland aftur á móti verr statt heldur en fyrir áratug og það nokkuð mikið.

En mestu skiptir að við erum allt að 30 sætum neðar en önnur Norðurlönd þegar kemur að alþjóðaviðskiptum og erlendri fjárfestingu. Þar er staðan grafalvarleg. Eigi lífskjör hér að vera sjálfbær og sambærileg við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum, þá verðum við að komast upp úr botnsætunum þegar litið er til alþjóðlegra viðskipta og erlendra fjárfestinga. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst ríkisstjórnin tryggja að samkeppnishæfni Íslands í alþjóðaviðskiptum og fjárfestingum erlendra aðila, þar sem við erum í 56. sæti af þessum 63 þjóðum, verði sambærileg og á öðrum Norðurlöndum í ljósi þess að við eigum enn þá verulega langt í land með að ná vinum okkar á Norðurlöndum samkvæmt þessum nýjustu mælingum? Hvaða hugmyndir hefur hæstv. ráðherra til þess að efla samkeppnishæfni Íslands og ekki síst þegar kemur að alþjóðaviðskiptum og fjárfestingum erlendra aðila?