Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

samkeppnishæfni Íslands í alþjóðaviðskiptum og fjárfesting erlendra aðila.

176. mál
[18:48]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Enn og aftur vil ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að koma með spurningar inn í þingsal um samkeppnishæfni og hvar Ísland er statt. Það er auðvitað rétt sem hv. þingmaður segir, um það hvar Ísland stendur varðandi þessi alþjóðaviðskipti. Hins vegar vil ég bæta því við að þrátt fyrir það höfum við verið að setja okkur það markmið að færast ofar á alþjóðlegum listum sem mæla samkeppnishæfni landsins og skilyrði fyrir erlenda fjárfestingu. Eins og staðan er í dag þá erum við í 16. sæti fyrir árið 2022 en árið 2021 vorum við í 21. sæti og því höfum við farið upp um fimm sæti á milli ára þegar kemur að mælingu á samkeppnishæfni landsins.

Ég ætla að leyfa mér að koma með ákveðnar kenningar um hvar við erum stödd, vegna þess að ég er mjög hlynnt alþjóðaviðskiptum og tel að því meiri sem alþjóðaviðskipti eru á Íslandi, því betri verði lífskjör. Staðan er sú að um leið og Ísland fer að flytja út og gera sig gildandi; sjávarfang, orku í gegnum áliðnað, ferðaþjónustuna og núna skapandi greinar og hátækni, þá auðvitað aukast lífskjör í landinu. En ef við lítum aðeins á grunngerð hagkerfisins er það enn þannig í dag að við erum býsna drifin áfram af auðlindum. Við erum með sjávarútveg, orkuauðlindirnar og ferðaþjónustu, og þarna erum við samkeppnishæf vegna þess að við erum að flytja mun meira út af þessari vöru og þjónustu en við erum að flytja inn. Hins vegar höfum við ákveðið sem samfélag að setja ákveðnar takmarkanir á erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi og það sama á við um orkuiðnaðinn og líka ferðaþjónustuna varðandi mikil kaup á landi. Mér finnst mjög áhugavert hvernig við ætlum að feta okkar næstu skref í þessu, vegna þess að það kann að vera erfiðara fyrir okkur að ná þessu upp vegna grunngerðar hagkerfisins nema ef við opnum fyrir erlendar fjárfestingar í þeim greinum þar sem við erum samkeppnishæf.

Ég ætla hins vegar að nefna að við höfum til að mynda breytt umgjörð í kringum kvikmyndaiðnað á Íslandi. Við erum með endurgreiðslur upp á 25 og 35% og í kjölfarið erum við að sjá eina mestu erlendu fjárfestingu í menningu á Íslandi sem skapar hundruð starfa. Ef mér telst rétt til þá erum við að tala um 10 milljarða.

Hvað getum við gert til að bæta þessa samkeppnishæfni okkar? Fyrir mitt leyti þá geld ég varhug við því að opna fyrir erlenda beina fjárfestingu inn í sjávarútveg, ég vil að Landsvirkjun sé áfram í opinberri eigu og við opnum hvorki fyrir beina erlenda fjárfestingu inn í Landsvirkjun né einkavæðum hana. Hins vegar er hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum auðvitað að skoða þessa mælikvarða og hvað við getum gert betur. Ég tel að við getum unnið að lánshæfi ríkissjóðs Íslands og kynnt betur þann árangur sem við höfum náð í ríkisfjármálum. Við erum með tiltölulega hagstætt skuldahlutfall og með því að fá hækkun á lánshæfiseinkunn Íslands þá tel ég að við getum lækkað fjármagnskostnað. Ég nefni þessa þætti, sem ég tel að séu mjög mikilvægir. Það er líka margt sem vinnur með okkur. Við erum tiltölulega ung þjóð, með mjög mikinn og kröftugan hagvöxt og kannski því miður meiri þenslu á vinnumarkaðnum en eðlilegt er. Þess vegna eru stýrivextir háir á Íslandi. En ég verð að viðurkenna það, að ég tel eina af ástæðunum fyrir því að við erum að skora svona lágt vera hvers eðlis hagkerfið okkar er og að enn í dag er stór hluti þeirra gjaldeyristekna sem við sköpum knúinn áfram af auðlindanýtingu.