Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

828. mál
[19:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Sá árangur, sú framþróun sem hefur náðst í íslensku samfélagi hefur nú ekki alltaf verið byggð á miklum áætlunum, miklum greiningum eða skýrum plönum. Þannig mætti t.d. segja að á Íslandi hafi aldrei verið rekin iðnaðarstefna. Það hafa vissulega verið reknar afmarkaðar stefnur, eins og t.d. stóriðjustefnan lengi vel sem einkenndist af linnulausri viðleitni stjórnvalda til að ná erlendum framleiðendum til landsins í von um að þeir myndu setja upp mannaflsfrekar verksmiðjur í skiptum fyrir ódýrt rafmagn, en heildarstefna hefur ekki verið til staðar. Þegar Smári McCarthy lagði fram tillögu um mótun slíkrar stefnu, mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu, á 151. þingi komst hann þannig að orði að Íslendingar hefðu stuðst við það sem hann kallaði haglabyssuaðferðina, sem felst í grófum dráttum í því að plaffa einhvern veginn út í loftið og vona að eitthvað hitti í mark. Auðvitað gerist það að stundum hæfi skotin, skilji jafnvel eftir sig varanlegt spor, en það sé hægt að ná miklu meiri árangri með því bara að miða. Þess vegna var mjög ánægjulegt hér á 151. þingi þegar þessi tillaga Smára og þingmanna Pírata og Framsóknar var samþykkt. Þá var samþykkt að ráðast í þá vinnu að móta sjálfbæra iðnaðar- og atvinnustefnu sem myndi hvíla sérstaklega á gildum um nýsköpun, umhverfisvernd og dreifðan stuðning við margar atvinnugreinar frekar en sértækan stuðning við fáar. Þetta var samþykkt í maí 2021 og gert var ráð fyrir að ráðherra myndi kynna nýja stefnu ári síðar, fyrir maí 2022. Svo kom fram í skýrslu um framkvæmd ályktana Alþingis, sem birtist í nóvember síðastliðnum, að framkvæmd væri ekki hafin við mótun þessarar stefnu.

Því legg ég fram þessa fyrirspurn til hæstv. ráðherra: Hvað líður vinnu við sjálfbæra iðnaðarstefnu sem ráðherra var falið að móta og kynna fyrir maí 2022 samkvæmt þingsályktun nr. 20/151?