Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 83. fundur,  20. mars 2023.

mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu.

828. mál
[19:30]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta er mjög mikilvæg umræða: Hver er sýnin og hver er stefnan sem við erum að vinna eftir í atvinnustefnu Íslands? Hvert erum við að fara og hvar ætlum við að fjárfesta og gera betur? Ég get glatt hv. þingmann með því að vinnan er aldeilis hafin í ráðuneytinu varðandi það að móta stefnu um sjálfbæran iðnað. Við erum aðeins að skoða hvernig við skilgreinum þetta, hvar við stoppum, af því að þetta gæti orðið gríðarlega stórt viðfangsefni. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni, sem ég hef birt og er nú í samráðsgátt, um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélags á Íslandi, þar sem ég er einmitt að reyna að móta heildarsýn gagnvart þeim málaflokkum sem ráðuneytið fer fyrir, þá er ein aðgerð þar að mótuð verði stefna um sjálfbæran þekkingariðnað sérstaklega, í samræmi við þingsályktunina sem hv. þingmaður spyr hér um. Í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu kemur fram að við gerð stefnunnar verði sérstaklega litið til þess hvernig bæta megi framleiðni, fjölbreytni og sjálfbærni íslensks iðnaðar á tímum örra samfélagsbreytinga. Við ætlum að hafa að leiðarljósi við stefnumótunina að iðnaðinum verði skapað stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi. Jafnframt þarf að skoða í samskiptum og samráði við mennta- og barnamálaráðherra sýn á iðnnám með mótun iðnaðarstefnu. Þá hef ég áhuga á að skoða þrepaskipt iðnnám og sjálfbærni í iðnnámi sem kannski vantar líka aðeins til að fylgja takti nýrra tíma og áskorunum í atvinnulífinu og samfélagsbreytingum.

Ráðuneytið hefur t.d. hafið samtal við haghafa til þess að kalla eftir sýn þeirra og tillögum um þetta inntak sem við höfum verið að móta undanfarið. Við erum með ýmis vinnuheiti í gangi til að reyna að ná utan um viðfangsefnið en vinnan felst núna svolítið í greiningu þessara áskorana sem við er að kljást og kannski ákvörðun um umfangið, hversu mikið við eigum að ráðast í. Það þarf að ræða sýn stjórnvalda á þróun iðnaðar í víðustu merkingu, bæði með tilliti til hugvits og hátækniiðnaðar, en tengsl hennar við stefnur sem stjórnvöld hafa sett í tengdum málaflokkum eru mikil. Það þarf að gera tillögur um aðkomu stjórnvalda að einstökum aðgerðum og setja stefnunni síðan markmið og mælikvarða. Iðnaðarstefna er stór og hún myndi hafa snertifleti við menntastefnu, byggðastefnu, orkustefnu, fjarskiptastefnu, þjóðaröryggisstefnu, auðlindastefnu og auðvitað fjármálaáætlun.

Vandi okkar er kannski líka, sem ég held að sé mikilvægt að ræða, ekki síst tungumálið og merking orða. Margir tengja nefnilega hugtakið iðnað eingöngu við reykspúandi verksmiðjur. Iðnaður er nefnilega miklu meira en það. Iðnaður er allar þær athafnir fólks sem skapa verðmæti í samfélaginu. Við höfum notað þekkingariðnað til að undirstrika mikilvægi hugvitsins við verðmætasköpun, einkum fyrir þjóðir eins og Íslendinga sem hafa aðgang að auðlindum en þær eru ekki ótæmandi. Framlag stjórnvalda felst því í að skapa skilyrði til þess að hugvitið fái notið sín og vaxi og eflist í nýjum iðnaði og þekkingariðnaði, ekki síst líka alþjóðlega, og tækifærum gagnvart því að skapa auknar útflutningstekjur með breyttum iðnaði og áherslum á sjálfbærni. Til þess að það geti raungerst þarf að líta til ýmissa samfélagslegra áskorana, ekki síst stafrænna lausna, fjarskipta- og netöryggis og öryggis aðfanga. Við þurfum einnig að huga að stuðningi við menntakerfið, eins og ég nefndi, til að það geti séð atvinnulífinu og sjálfbærum iðnaði fyrir hæfum einstaklingum. Og við þurfum að huga líka að mannauði erlendis frá með sérfræðiþekkingu sem við höfum þörf fyrir.

Mig langaði að nýta tækifærið aðeins til að segja þingmanninum hvert við erum komin í vinnunni sem er í fullum gangi af því að ég veit að hv. þingmaður hefur áhuga á því. Við erum kannski ekki að fjalla um landbúnað og sjávarútveg í stefnu okkar, sem, ef við berum okkur saman og skoðum iðnaðarstefnu annarra landa, er oft inni í iðnaðarstefnu annarra landa og oft er ferðamannaiðnaðurinn þar líka. Ef við notum útilokunaraðferðina, hvað stendur þá eftir? Það er þá mannvirkjagerð, upplýsingatækni, lyfjaiðnaður, líftækniiðnaður, heilbrigðistækni, leikjaiðnaður, menntatækni, orkuiðnaður, stóriðja, endurvinnsla, ýmiss konar græniðja og loftslagslausnir sem við þekkjum ekki í dag.

Í grófum dráttum má segja að iðnaðarstefna feli þá í sér greiningu á bæði aðstæðum og ástandi. Þar þurfum við að lista upp áskoranir og úrlausnarefni og erum að fara að setja fram sýnina og stefnuna, hvað stjórnvöld hyggjast fyrir og hvaða markmið við ætlum að setja okkur í þessum fjölbreyttu málaflokkum. Það er líka mikilvægt með stefnur sem eru settar fram (Forseti hringir.) að það sé hægt að mæla árangur af þeim aðgerðum og að það séu settar fram skýrar aðgerðir svo að það verði ekki bara eintómar stefnur sem ekki er fylgt eftir, það sé sett inn allt það sem þarf að gera til þess að þú náir árangri með stefnunni.