Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég er hingað kominn til að hvetja Alþingi til dáða, þessa merku, næstum 1100 ára gömlu stofnun, og hvetja þingið til að bregðast við því stjórnleysi sem nú er ríkjandi í landinu. Það birtist á hinum ýmsu sviðum, eiginlega flestum sviðum. Í heilbrigðismálum lengjast biðlistar stöðugt. Það er ekkert tekið á vandanum. Það er ekki brugðist við kerfisvandanum þar. Í samgöngumálum er stjórnleysi. Einn ráðherra segir að það þurfi að endurskoða samgöngusáttmála, annar segir það algjörlega óþarft. Í dóms- og löggæslumálum er stjórnleysið slíkt að ráðherrar ríkisstjórnarinnar tala algerlega í kross. Þannig gæti ég haldið lengi áfram.

En stærsta umræðuefnið síðustu daga er auðvitað stjórnleysið í efnahagsmálum þjóðarinnar þar sem ríkisstjórnin hefur slegið öll met í útgjöldum ríkisins, útgjaldaaukningu og heildarútgjöldum ríkisins, reyndar bætt stundum við hérna í þinginu og svo heyrum við af því núna að jafnvel þessar miklu áætlanir um útgjaldaaukningu muni ekki duga til því að útgjöldin verði enn þá meiri. Og hver er afleiðingin? Hún er verðbólga, verðbólga sem hefur áhrif á auðvitað verð þess sem fólk þarf að kaupa dagsdaglega en skilar sér líka í síendurteknum vaxtahækkunum Seðlabankans sem er að reyna að bregðast við útgjaldabrjálæði ríkisstjórnarinnar. Það þýðir að heimilin þurfa að borga meira og meira af lánunum sínum. En ekki nóg með það heldur er hætta á því núna, og reyndar útlit fyrir það, að lífeyrir landsmanna geti rýrnað mjög verulega við þessar aðstæður því að ríkisskuldabréf hafa fallið mjög hratt í verði eftir því sem vextir hafa hækkað og fyrri ríkisskuldabréf, sem lífeyrissjóðirnir eiga gríðarlega mikið af, og raunar ekki bara ríkisskuldabréf heldur skuldabréf á sveitarfélög og aðra aðila, hafa fallið mjög hratt í verði. Þarna getur munað hundruðum milljarða. Ríkisstjórnin bregst ekki við neinu af þessu og ekki öðrum áhyggjuefnum heldur. (Forseti hringir.) Þingið, herra forseti, þarf að bregðast við.