Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Athafnir mannfólks, og þá sérstaklega bruni jarðefnaeldsneytis, hafa leitt til hlýnunar loftslags um 1,1°. Þetta kemur fram í samantektarskýrslu um loftslagsbreytingar sem milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna gaf út í gær. Það eru kannski engin ný tíðindi en aldrei hefur þetta verið dregið saman jafn skýrt og með jafn afdráttarlausum hætti. Þessi hlýnun sem þegar hefur átt sér stað er farin að valda áhrifum, miklum áhrifum, á líf fólks víða um heim, miklum áhrifum á dýr og lífríki um allan heim. Við þessu verður að bregðast.

Og er verið að bregðast við þessu? Eru ríkisstjórnir heims að bregðast við eins og þær segjast ætla að gera? Stutta svarið er nei. Það kemur líka fram í skýrslunni. Ríki heims eru ekki að gera nándar nærri nógu mikið til þess að bregðast við alvarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga og koma í veg fyrir þær verri, hvað þá að við séum einu sinni nálægt því að ná markmiði Parísarsáttmálans um að halda hlýnun innan 1,5°. Engin ríkisstjórn heims er nálægt því, þar á meðal sú íslenska. Það er svo sem hægt að benda á ýmsa stærri fiska í sjónum. Það er hægt að benda á tvískinnunginn í ríkisstjórn Støre sem leyfir borun eftir nýrri olíu í Noregi. Það er hægt að benda á tvískinnunginn í Biden sem er að opna ný olíuleitarsvæði á sama tíma og hann montar sig af metnaðarfyllstu áætlun Bandaríkjanna nokkurn tímann til að taka á þessum vanda. Hér heima fyrir stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að aðgerðir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur skiluðu því að á milli áranna 2020 og 2021 jókst losun (Forseti hringir.) gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 3%. Ísland er ekki að standa sig í stykkinu, forseti. (Forseti hringir.) Það verður að gera betur.