Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Almenningssamgöngur eru ekki bara samgöngumál heldur risastórt jafnréttis- og loftslagsmál. Almenningssamgöngur verða að byggja á þremur meginstoðum ef þær eiga að koma að gagni; hæfilegum kostnaði, tíðni og áreiðanleika. Ísland er víðfeðmt og strjálbýlt en það breytir því ekki að blómleg byggð er hringinn í kringum landið. Þær samgöngur sem íbúar hinna dreifðu byggða stóla á eru ýmist með flugi, akstri eða ferjusiglingum. Staðan á innanlandsflugi hefur um langt árabil verið óboðleg en þar ber helst að nefna óheyrilegan kostnað. Þrátt fyrir Loftbrú eru það forréttindi fárra að geta nýtt sér innanlandsflugið og alla jafna er mun hagstæðara að bjóða fjölskyldunni með flugi til útlanda en að sækja nauðsynlega þjónustu milli landshluta.

Árum saman hefur verið vegið að farþegaflutningum á landsbyggðinni. Eftir að sveitarfélögin gáfust upp á rekstri almenningssamgangna í akstri og ríkið tók við hefur lítið eða ekkert breyst. Nú hefur Grímseyjarferjan Sæfari farið í slipp vegna viðhalds og liggja því siglingar niðri fram í maí, en ástandið á ferjusiglingum hringinn í kringum landið er í miklum ólestri eins og við þekkjum. Til að mæta skuldbindingum okkar í loftslagsmálum ættu samgöngur í lofti, láði og legi að vera forgangsmál. Fleiri og fleiri velja að nota ekki einkabíl en það er mjög óraunhæft á landsbyggðinni þar sem sækja þarf þjónustu og atvinnu um langan veg. Ef Norður-Noregur og Finnland geta gert þetta sómasamlega eigum við að geta það líka. Við sem samfélag verðum að gera þá kröfu að öll geti notfært sér þjónustu almenningssamgangna á Íslandi óháð líkamlegri færni búsetu eða efnahag.