Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[14:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi orð hv. þingmanns um mín orð, sem hann tekur undir, um mikilvægi þess að standa vörð um fullveldi og þátttöku okkar í þessum alþjóðakerfum þá er það þannig að þessi alþjóðakerfi sem byggð hafa verið upp eru alls ekki fullkomin en þau eru það langbesta sem við höfum. Mér finnst við hafa ríka ábyrgð til að standa vörð um þau kerfi og vera virkir þátttakendur, bæði vegna þess að það er það sem er rétt að gera og það er líka blákalt hagsmunamat Íslands að það sé gert. Við erum með stefnur sem í raun marka okkar áherslur og utanríkisstefnu ef við horfum á þróunarsamvinnustefnu, þjóðaröryggisstefnu o.s.frv. Við erum líka að endurskoða og endurhugsa okkar þátt í samstarfi þjóða vegna alls sem hefur gengið á. Ég sé ekki annað en að þau skref sem við tökum feli það öll í sér að stefnan er í raun að vera virkari þátttakendur, að taka hlutverk okkar alvarlegar heldur en við höfum gert, að segja mjög skýrt hvar Ísland stendur, að taka afstöðu. Þetta er auðvitað það sem við höfum gert í okkar utanríkismálum og utanríkisstefnu. Við höfum litið svo á að okkar orð séu okkar helstu vopn og auðvitað eigum við að halda því áfram. Hvort það sé tilefni til þess að draga þessar ólíku stefnur einhvern veginn í eina, ég ætla ekki að útiloka það en mér finnst, með okkar orðum og gjörðum, stefna íslensku utanríkisþjónustunnar og íslenskra stjórnvalda mjög skýr.