Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, áður en við stígum önnur skref, ég held að það sé alveg ágætt að halda því til haga vegna þess að þetta er veruleikinn okkar núna. Sem betur fer þá virðist mér eins og það sé mjög stór meiri hluti hér innan þings sem styður þetta góða samstarf og við eigum a.m.k. að geta unnið að því. Hitt er lengra inni í framtíðinni. Ég er fyrst og fremst að kalla eftir einhvers konar mati á kostum og göllum þannig að við getum átt þá umræðu. Það er í sjálfu sér hægt að hrósa stjórnvöldum fyrir að hafa spýtt aðeins í lófana þegar kemur að betri hagsmunagæslu og ef ég man rétt þá eru eiginlega öll ráðuneyti nema mennta- og menningarráðuneytið með sína fulltrúa úti í Brussel. Það er reyndar mjög slæmt að það ráðuneyti skuli ekki vera búið að manna stöðu. Það gefur okkur nokkuð marga fulltrúa sem geta í rauninni kannski sinnt því allra nauðsynlegasta þegar tekið er tillit til þess. Annað sem stjórnvöld hafa gert ágætlega er að fara vel yfir innleiðingarlistann og setja puttana á þau mál sem þau vilja að verði sett í forgangsskoðun. Veikleikinn er auðvitað sá hins vegar að eðli samstarfsins í rauninni gerir okkur ekki kleift að komast að málum nógu snemma á umræðustigi, á hugmyndastigi, þar sem virkilega væri hægt að ráða betur við hlutina. Hvað mætti bæta? Hæstv. ráðherra þekkir það eflaust betur en ég myndi telja að við ættum að leita í enn meira mæli eftir samstarfi við nágranna okkar, Norðmenn, sem hafa oft mjög líkra hagsmuna að gæta, eru 15 sinnum stærri og með 70 starfsmenn úti í Brussel.