Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:55]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mér heyrist við vera sammála og þegar við erum sammála um að auka þetta þá þurfum við bara að vinna saman þvert á flokka við að reyna að ná þessum markmiðum. En mig langaði í seinna andsvarinu að spyrja hv. þingmann aðeins út í það sem ég veit að stendur honum mjög nærri, enda situr hv. þingmaður í þjóðaröryggisráði, en það eru þessar nýju hættur, eins og hv. þingmaður valdi að kalla það. Við erum að tala um netöryggi. Við erum að tala um upplýsingaóreiðu. Við erum að tala um það, eins og við sáum um daginn, að það féll einn banki af því að allt í einu var gert áhlaup á hann á samfélagsmiðlum sem fylgdi síðan að fólk fór að taka út. Allt eru þetta hlutir sem hægt er að nýta sér til að ráðast á land á nýjan máta. Við þurfum kannski ekki íslenskan varnarher með byssur en við þurfum sennilega einhvers konar varnarlið sem er í því að hjálpa okkur að takast á við þessar nýju ógnir.

Þess vegna langaði mig að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi nægilega mikið fjármagn hafa verið veitt í að bregðast við þessum hættum og ef ekki, hvernig getum við þá tryggt það fjármagn sem þarf til að sjá til þess að við lendum ekki í klónum á þessum nýju hættum?