Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins áfram varðandi alþjóðlegan björgunarskóla þá leggur DAC sömuleiðis áherslu á að Ísland fjölgi ekki áherslusviðum í þróunarsamvinnu sinni heldur styrki það sem þegar er til staðar. Hvað sem því líður þá held ég að við eigum að horfa til þess að leggja áherslu á þjálfun á vettvangi þannig að hægt sé að koma þekkingu á framfæri við fleiri einstaklinga með minni tilkostnaði. Eins og þingmenn leggja upp með þá felur málið í sér að þetta verði skoðað og þá væntanlega með svigrúmi til frekari útfærslu. Það er ekki búið að negla það niður nákvæmlega með hvaða hætti þetta yrði gert. Viðbrögð okkar við náttúruhamförum og jarðskjálftum í Tyrklandi — því miður var ekki hægt að fara inn í Sýrland en við studdum það með öðrum hætti — voru þau að senda okkar fólk þangað. Mér fannst það í anda þess sem við viljum gjarnan byggja á, þ.e. að horfa til þess að við nálgumst málin ekki alltaf út frá því að „þrátt fyrir að við séum smá“ getum við gert eitthvað heldur stundum einmitt bara „vegna þess að við erum smá“ þá getum við kannski gert hluti sem aðrir aðilar geta síður og við getum gert þá hraðar.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að stundum gætum við sagt hluti sem væri erfiðara fyrir stærri ríki að segja, sem ég er algerlega sammála og hamra mjög á. Því fylgja þá jafnvel ákveðnar skyldur og ákveðin ábyrgð og það sama á við í þessu. Við getum brugðist hratt við. Stundum snýst þetta ekki bara um stærstu tölurnar og stærstu aðstoðina þegar þú horfir á stór verkefni og áskoranir og áföll, hvort sem það eru stríð eða náttúruhamfarir, heldur skiptir líka stundum svo gríðarlega miklu máli að vera fyrstur á staðinn. Þótt það sé smærra í heildarsamhenginu þá getur það verið það allra mikilvægasta akkúrat þegar hægt er að bregðast við — og í sumum tilfellum getum það verið við.