Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það kröftugasta sem við getum gert, bæði sem þing og sem þjóð, til þess að einstakir ráðherrar eða ráðamenn taki ekki þátt í stríði gegn öðrum þjóðum sé að við séum skýr á kröfunni um frið, séum skýr á kröfunni um friðsamlegar lausnir, séum skýr á því að við erum samfélag sem ætlum að fara aðra leið í því að leysa úr ágreiningi þjóða í millum. Ég held að besta leiðin til þess að hafa áhrif á ráðamenn sé krafan frá samfélaginu en til þess þurfum við líka að ræða þessa hluti. Við þurfum að ræða um öryggismál á breiðum grunni. Við þurfum að ræða um þær hörmungar sem blasa við alls staðar í heiminum þar sem stríð hafa verið háð og við þurfum hreinlega að gera okkur grein fyrir því að ef við sem samfélag drögumst út í átök þá gerist nákvæmlega það sama hjá okkur sem samfélag sem er í stríði og í öðrum löndum þar sem stríð hafa geisað, þ.e. samfélagslegt hrun þar sem almenningur tapar öllu.