Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikilvægt að umskiptin, þegar við komum á kolefnishlutlausu samfélagi á heimsvísu, séu réttlát. Þar þurfum við, Ísland sem er meðal auðugustu ríkja heims, að átta okkur á því að það erum við sem þurfum að styðja við fátækari þjóðir. Það erum við sem þurfum að breyta neyslu okkar. Það erum við sem þurfum að styðja fátækari þjóðir til þess að almenningur þar geti lifað mannsæmandi lífi og hægt sé að takast á við loftslagsbreytingar á sama tíma. En á sama tíma þurfum við auðvitað að gera þá kröfu á stjórnvöld í öðrum ríkjum að þau leggi jafnframt áherslu á réttlát umskipti innan sinna samfélaga því að það hlýtur að vera á ábyrgð stjórnvalda á hverjum stað að útfæra hjá sér hvernig staðið er að málum. En jú, ég tek undir það með hv. þingmanni að við sem ein af ríkustu þjóðunum þurfum auðvitað að leggja af mörkum til þess að umskiptin geti verið sanngjörn, og á því græða allir.