Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[16:44]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það er auðvitað gott að það sé hugsjónafólk í pólitíkinni þegar kemur að utanríkismálum og heimsmálum; líkur á betri heimi og við sem erum kannski ögn jarðbundnari hrífumst nú af þessum fallegu orðum. Um síðustu helgi voru landsfundir hjá tveimur norrænum vinstri flokkum, annars vegar hjá Vinstri grænum á Akureyri og hins vegar SV, eða Socialistisk Venstreparti í Noregi, en ég held að það sé systurflokkur VG. Það bar til tíðinda að kosinn var nýr formaður þar, Kirsti Bergstø, en ekki síður, og fréttirnar hafa aðallega snúist um það, að flokkurinn tók nýjan pól í hæðina varðandi NATO. Fráfarandi leiðtogi sagði m.a. að það væri ekki mögulegt fyrir Noreg að ganga úr NATO og nú þegar Svíar og Finnar ganga í NATO væri ekki beinlínis skynsamlegt að gera það. Heimurinn er flókinn en flokkar geta alveg verið það líka.

Nú hafa Vinstri græn fylgt þjóðaröryggisstefnu Íslands frá upphafi ríkisstjórnarsamstarfsins og stigu reyndar það gleðilega skref að samþykkja uppfærða þjóðaröryggisstefnu sem byggir á grunnstoðunum um veru í Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða samningi við Bandaríkin. Þau studdu reyndar ekki öll það að Svíar og Finnar gætu gengið í NATO og byggt á sömu grunnstoðum og við. Það er þetta sem gerir hlutina aðeins flókna í mínum huga. Ég spyr því einfaldlega: Hver er afstaða hv. þingmanns til verunnar í NATO og hver er afstaða Vinstri grænna til verunnar í NATO?