Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[17:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég segja að ég fagna mjög þingmannamáli um að koma á fót einhvers konar vettvangi til að dýpka umræðu um öryggis- og varnarmál. Mér finnst það skorta í íslensku samfélagi hvert sem litið er og fagna því mjög að taka það frekar á dýptina. En ég bara átta mig ekki almennilega á því þegar sagt er að við eigum að þétta samstarfið alþjóðlega en að við séum ekki trúverðug nema við leggjum sjálfstætt mat á það hvort við þurfum fasta viðveru í Keflavík. Það sem við erum að segja er að við höfum þétt samstarfið alls staðar; við Norðurlönd, inni í Atlantshafsbandalaginu, við NORDEFCO, í JEF, við Bandaríkin. Við erum með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Við erum í NATO. Það er mat þessara aðila, sem við vinnum þétt með, að við þurfum ekki fasta viðveru. Hversu trúverðugt væri það ef við myndum finna upp á því hér að segja: Heyrðu, það er reyndar okkar mat út frá umræðum á vettvangi sem við höfum komið á fót að við þurfum mörg hundruð manna herlið á Keflavíkurflugvelli? Og það samanborið við mat allra hinna sem við erum í þéttu samstarfi við sem er einmitt líka að breytast, sú starfsemi og það samstarf er að breytast. Það er verið að þétta allar áætlanir. Það erum við líka að gera. Þannig að þegar sagt er að við höfum ekki plön um það hvað myndi gerast eða hver viðbrögðin yrðu ef það versta eða með því versta sem við getum hugsað okkur myndi gerast hér — auðvitað er það ekki rétt. Auðvitað erum við með áætlanir og plön um það og þau plön og þær áætlanir og sú vinna fer að langmestu leyti fram í gegnum og með og í samstarfi við þær stofnanir og í því samstarfi sem við höfum verið í mjög lengi, eins og Atlantshafsbandalaginu, yfir í annað samstarf sem er frekari nýtilkomið og svo í samstarfi eins og á Norðurlöndunum sem ég myndi segja að hafi breyst svolítið í eðli sínu undanfarin misseri vegna þess að þar var nánast ekkert rætt um öryggis- og varnarmál af einhverri alvöru fyrir ekki svo löngu síðan en það er allt að breytast líka. (Forseti hringir.) Þannig að okkar mat er einfaldlega að við gerum ekki athugasemd við mat (Forseti hringir.) sem verður til í öllu okkar samstarfi hvert sem litið er.