Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

ÖSE-þingið 2022.

688. mál
[18:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og yfirferð yfir skýrsluna og óska honum velfarnaðar sem formanni Íslandsdeildar ÖSE. Eins og fram kom gegndi ég þessu starfi á síðasta ári og hafði þá líklega setið á ÖSE-þinginu í fjögur ár. Ég get því ekki látið hjá líða að koma aðeins hingað upp og fara yfir það sem brennur á mér í þessu starfi. Ég hef alloft, forseti, flutt ræður hér undir störfunum og á öðrum vettvangi til að segja frá því sem fram hefur farið á þessum fundum okkar og ég vil bara minna á hversu mikilvægt ÖSE-þingið er.

Það líður mér auðvitað seint úr minni að sitja í Vín, á fundi ÖSE-þingsins 24. febrúar 2022, með Mykyta Poturaiev, sem er formaður landsdeildar Úkraínu, fyrir aftan mig, þegar hann fór yfir það hvernig staðan væri í landinu, fór yfir það hvernig þingmenn heima væru að vopnvæðast. Hann hélt svo ræðu daginn eftir, 25. febrúar, þar sem hann var auðvitað klökkur, og við öll, þar sem hann lýsti því yfir að hann hefði ákveðið að sitja áfram með okkur og eiga samtalið í staðinn fyrir að fara heim til konu sinnar og barna, og ræddi áhyggjurnar sem hann hefði af fjölskyldu sinni og því hvort hann myndi hreinlega komast heim til fjölskyldunnar. Á sama tíma voru fulltrúar Rússa á fundinum, reyndar í gegnum fjarfundarbúnað. Það var bara svo átakanlegt — ég held að maður trúi því ekki fyrr en maður hefur hreinlega upplifað það — þegar maður heyrði fólk svo tala um einhvern allt annan veruleika, þessa sýn Rússa; það var svo stjarnfræðilega furðulegt að hlusta á fólk halda ræðu um það að verið væri að bjarga Úkraínu. Ég kem ekki orðum að þessu, virðulegur forseti, það er svo súrrealískt að upplifa slíkt.

Eins og farið er yfir í skýrslunni þá hef ég auðvitað notað hvert tækifæri sem ég hef haft — ég held að við eigum að gera það á alþjóðavettvangi, þar sem við höfum míkrófóninn þá eigum við að nota hann — á vettvangi ÖSE-þingsins til að taka til máls og taka undir stuðning okkar við úkraínsku þjóðina og fordæma þessa hryllilegu innrás. Það er líka svo mikilvægt fyrir okkur — við vorum að ræða NATO-nefndina áðan — því að við erum auðvitað herlaus þjóð sem treystum á frið og við treystum á að ríki virði alþjóðalög. Það er náttúrlega það sem Rússar hafa þverbrotið í öllu. Við skulum heldur ekki gleyma því, ég held að það sé líka mikilvægt í orðræðunni, að það hefur Belarús líka gert. Ég held að við þurfum að muna það í allri þessari orðræðu. Ég vil líka nota tækifærið eftir þessa hryllilegu innrás og í þessum samtölum okkar að minna sérstaklega á það að konur og stúlkur á flótta eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og hversu mikilvægt er að horfa til þess.

Eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson kom inn á þá var mér úthlutað því verkefni af forseta ÖSE-þingsins að vera sérstakur talsmaður um málefni norðurslóða vegna þess að ég hafði látið til mín taka á þessum vettvangi um norðurslóðir. Ég hafði fengið það verkefni töluvert fyrir innrásina og var að reyna að móta einhverja stefnu og ályktun um norðurslóðir sem hægt yrði að samþykkja á ÖSE-þinginu. Ég hafði miklar væntingar til þess, þegar það verkefni hófst, að ég gæti fengið Rússa að borðinu. Ég hélt einn fjarfund um þetta og boðaði þá sérstaklega norðurslóðaríkin sem eru í ÖSE. Öll norðurslóðaríkin sitja í ÖSE þannig að ÖSE er sannarlega vettvangur til að ræða norðurslóðamál. Rússarnir mættu þá — þetta var löngu fyrir innrásina — en tóku ekki til máls og voru ekki virkir þátttakendur. Það var mjög ánægjulegt að geta skilað af sér ályktun á ársfundinum okkar í Bretlandi síðasta sumar. Ég skilaði þar skýrslu og fékk samþykkta ályktun sem mikill stuðningur var við. Ályktunin gengur ekki síst út á það að beina sjónum aðildarríkjanna að norðurslóðum og því sem er að gerast þar, að beina sjónum þeirra að hinum ofboðslega miklu loftslagsbreytingum sem þar eru að eiga sér stað og áhrifum þeirra á samfélögin, áhrifum þeirra á öryggis- og varnarmál á þessu svæði og mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið taki höndum saman um að tryggja það að norðurslóðir séu lágspennusvæði.

Mig langar líka að minnast á það að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir tók sérstaklega til máls á þinginu um réttindi til þungunarrofs. Við höfðum verið með í bígerð sérstaka ályktun þar að lútandi og var það ekki síst vegna þeirrar umræðu sem hafði verið þá, þar sem Bandaríkin eru aðilar að ÖSE. Það var full ástæða til að taka þá umræðu. Sameinast var um ákveðna ályktun og orðræðu í þeim efnum sem ég er mjög ánægð með.

Ég ætla ekki hafa þetta mikið lengra. Ég vil bara óska nýrri landsdeild velfarnaðar í störfum sínum og vil hvetja til þess að áfram verði talað fyrir norðurslóðum og að við séum virkir þátttakendur í ÖSE-þinginu. Það er ofboðslega sérstakt að eitt af ÖSE-ríkjunum hafi ráðist inn í annað ÖSE-ríki og brotið allt sem stendur í okkar sáttmála. Það er þar af leiðandi ekki skrýtið að ítrekað hafi verið reynt að finna leiðir og því velt upp hvort hreinlega eigi að henda Rússum út. Það er ágætlega farið yfir það í skýrslunni. Sú tillaga var samþykkt á síðasta ársfundi að hefja slíka vinnu. Því miður fór það ekki í gegn á fundinum okkar í Póllandi en það er auðvitað flókið og það eru líka rök með því að halda uppi samskiptaleiðum því að öll vonum við að einhvern tímann, og vonandi fyrr en síðar, ljúki þessu stríði. Þá er það auðvitað þannig að Rússar eru nágrannar okkar og hluti af því víðfeðma svæði sem ÖSE spannar. Ég vona að þessu ljúki fyrr en seinna en ástandið eins og það er í dag er slæmt. Ég er ánægð með Íslandsdeildina og aðra þingmenn sem gengu út undir ræðum rússneskra þingmanna sem héldu ræður á síðasta vetrarfundi. Það hefur einkennt starfsemi ÖSE-þingsins að þegar fulltrúi Rússa hefur tekið til máls þá hefur samstaðan með Úkraínu verið sýnd með þeim hætti að menn hafa gengið út undir ræðum þeirra.