Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

norrænt samstarf 2022.

832. mál
[19:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Samstarf Norðurlandanna hefur aldrei verið mikilvægara. Þetta er svona frasi sem stendur upp úr öllum og einkum á hátíðisdögum. Þegar við komum saman, norrænir þingmenn, þá tölum við þannig að norræna samstarfið þurfi að styrkja og að það hafi aldrei verið mikilvægara en einmitt núna. Og ég er innilega sammála því. En um leið og við segjum þetta þá þurfum við einhvern veginn að láta það raungerast og sjá það fyrir að Norðurlöndin geti verið samþættasta og sjálfbærasta svæði í heimi.

Þá vil ég tala um fjármálin sem við reyndar tölum mikið um í forsætisnefnd. Það er þannig, frú forseti, að síðan 1995 hafa fjárframlög til Norðurlandasamstarfsins, í þeirri mynd sem við þekkjum það, dregist saman ár frá ári, á hverju ári alveg síðan 1995, miðað við verga landsframleiðslu landanna. Á þessum sama tíma hafa verið gerðar nokkuð margar kannanir meðal íbúa norrænu ríkjanna þar sem næstum því allir segja að þeir vilji aukið samstarf. Íbúarnir, kjósendurnir segja: Við viljum aukið samstarf. Ríkisstjórnirnar segja: Við ætlum ekki að láta aukna fjármuni í þetta samstarf. Við ætlum að láta norræna samstarfið taka minni skerf af vergri landsframleiðslu landanna.

Mér finnst þetta bara ekki ganga upp. Síðustu vendingar sem við höfum verið að slást við, og vorum kannski svolítið sein að átta okkur á í forsætisnefnd hvað þýddu, er að ný verkefni voru sett inn á borð samstarfsins, sem eru græn verkefni sem eru sannarlega mikilvæg, en fjármagnið til að fara í þessi grænu verkefni var tekið af menningarmálunum og skólamálunum. Menningarmál og skólamál eru málin sem grasrótin teygar í sig og eru stoðirnar undir norræna samstarfinu. Það er hættulegt, frú forseti, tel ég, fyrir samstarfið að draga úr styrkjum til bæði verkefna og eins til norrænna stofnana sem nú eru að draga saman seglin. Það eru alls konar verkefni sem detta upp fyrir og stofnanir okkar veikjast vegna þess að skera á niður fjárframlög til menningar- og skólamála um 25% af því að við þurfum að fara í grænu verkefnin.

Ég held að þetta hafi verið röng ákvörðun á sínum tíma og við þurfum að snúa þessu við. Grænu verkefnin eru stærstu sameiginlegu verkefni mannkynsins alls en norræna menningin og norrænu skólamálin og norræna samstarfið á milli stofnana, milli félagasamtaka, milli fyrirtækja og allt þetta sem við þekkjum er okkar og við eigum að hlúa að því. Við þurfum að snúa þessari þróun við með einhverjum hætti og standa saman um það. Mér heyrist nú vera samhljómur innan Norðurlandaráðs um nákvæmlega þetta, að ekki sé hægt að ganga svona hart í niðurskurði á þessum grunnstoðum fyrir samstarfið okkar, það sem einkennir okkur, og að nýir peningar þurfi að koma fyrir ný verkefni.

Frú forseti. Það eru risaverkefni sem lemja okkur í andlitið. Það eru réttlát græn umskipti, það er sjálfvirknivæðingin og svo erum við að glíma við ástand vegna þess að það er stríð í Evrópu. Við vorum farin að tala um öryggismál fyrir fimm árum í Norðurlandaráði. Á þeim tíma fengum við sérfræðinga inn til forsætisnefndar sem sögðu okkur frá því að eitthvað væri að gerast í Rússlandi, það væri eitthvað skrýtið að gerast, og að Svíþjóð og Finnland þyrftu að efla sínar varnir. Það var strax farið að tala um að þarna væri einhver ógn á ferðinni. Við settum saman hóp í forsætisnefnd um samfélagsöryggi þar sem var einn frá hverjum flokkahópi, flokkahóparnir eru fimm, og ég fékk að vera þar fyrir flokkahóp jafnaðarmanna. Í stefnuplaggi þeirra er talað um netárásir, það er talað um falsfréttir, um orkuskort, ofsaveður, skógarelda, matvælaöryggi, jarðskjálfta, eldgos og hvernig við ætluðum að standa saman í almannavörnum og hjálpa hvert öðru þegar að þessu kæmi, ef eitthvað af þessu myndi dynja á okkur. Þetta eru allt saman ógnir þótt það séu ekki stríðsógnir. Í þessari stefnu var ekki talað um her en það var talað um heimsfaraldur og þetta var árið 2018. Við samþykktum stefnuna, við kölluðum eftir viðbrögðum frá ríkisstjórnum okkar um hvað það væri sem við vildum að þær gerðu í þessum efnum og við fengum svör. Okkur þóttu þau ekki nægilega skýr og við sendum aftur bréf og þrýstum á ríkisstjórnirnar að tala saman um samfélagsöryggi, um almannavarnir og að við myndum hjálpast að þegar ógn steðjaði að. Svo skall á heimsfaraldur, sem við sáum ekki fyrir, og þá komu í ljós brotalamir í samstarfinu á milli norrænu ríkjanna. Kannski var það einkum áberandi á landamærasvæðunum þar sem fólk fór í skóla og starfaði yfir landamæri en löndin töluðu ekki saman um sóttvarnir. Um þetta höfum við mikið rætt líka, veit ég, á vettvangi framkvæmdarvaldsins og þjóðirnar eru staðráðnar í því að láta þetta ekki koma fyrir aftur.

Frú forseti. Norðurlöndin eru þannig staðsett að þau eru mitt á milli, þau getað teygt sig í vestur og þau geta teygt sig í austur og svo geta þau farið norður og suður í Eystrasaltslöndin. Þau eru vel staðsett til að safna saman fólki og stuðla að friði og friðsamlegum lausnum. Það er von mín að það verði einmitt okkar hlutverk þegar til lengri tíma er litið.

Mig langar í lokin, forseti, að segja frá því sem við jafnaðarmenn erum að hugsa í öryggismálum. Ég veit ekki hvort ég hef tíma til að fara yfir það allt en við skrifuðum grein á dögunum um stöðuna í öryggismálum, að hún hafi versnað gífurlega, að samskiptin við Rússa séu auðvitað gjörbreytt. Þess vegna sé ærin ástæða til þess að dýpka og efla samstarf í varnar- og öryggismálum og aðild Svía og Finna að NATO muni efla norrænt samstarf í varnarmálum. Við leggjum til að þjóðþingin komi með í þetta og búin verði til ein nefnd með þingmönnum frá öllum löndunum þar sem settar verði niður pólitískar áherslur í öryggis- og varnarmálum og sett niður meginstefna til framtíðar í þessum málum fyrir norrænu ríkin. Nú getur það verið að þegar öll norrænu ríkin eru komin í NATO muni norræna samstarfið í varnar- og öryggismálum styrkjast en það getur líka verið að okkur finnist það bara óþarft. Þetta eru því svolítil tímamót. Sama má segja um ESB. Þrjú landanna eru í Evrópusambandinu. Ef við værum þar öll myndum við þá bara horfa þangað? Sumir segja reyndar að ástæðan fyrir því að fjármunir til norræns samstarfs hafi skroppið saman frá 1995 sé sú að þrjú stór lönd eru í Evrópusambandinu og eru að setja krafta, bæði peninga og starfskrafta, í það samstarf og þess vegna verði minna úr norrænu samstarfi.

Við stöndum á tímamótum. Ég hef sleppt því að tala um stefnu í alþjóðamálum af því að ég veit að hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson vill tala um það enda sat hún í þeim hópi, tíminn líður allt of hratt. Um leið og við segjum að norrænt samstarf sé mikilvægt og hafi aldrei verið mikilvægara þá þurfum við að sýna það í þjóðþingunum og í ríkisstjórnunum.