Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

norrænt samstarf 2022.

832. mál
[19:40]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar nú bara að taka aðeins upp þráðinn þar sem frá var horfið hjá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson og í anda þess sem hefur komið fram í fyrri ræðum um mikilvægi norrænnar samvinnu og hvert gildið er fyrir okkur sem tökum þátt í þessu. Sitjandi í Íslandsdeild Norðurlandaráðs þá lít ég á það sem forréttindi að geta tekið þátt í þessu samstarfi. Ég er þeirrar skoðunar og deili þeirri sýn með hv. þingmönnum sem hér hafa talað að norrænt samstarf er okkur Íslendingum afar mikilvægt. En það er líka svo að við getum sannarlega lagt heilmikið til málanna og höfum verið að gera það. Það eru bara sóknarfæri á þeim vettvangi. Við erum jú líka heppin með að við erum hlutfallslega stærsta landsdeildin, svona þegar horft er á það, þannig að við eigum að nýta okkur það að geta haft sterka rödd í þessu samhengi.

Því tengt langar mig bara stuttlega að koma inn á það, af því að hér erum við að ræða skýrslu síðasta árs, að á Norðurlandaráðsþingi síðastliðið haust kynnti okkar hæstv. forsætisráðherra formennskuáætlun norrænu ráðherranefndarinnar sem ber einmitt heitið Norðurlönd - afl til friðar. Ég nefni þetta í beinu framhaldi af þessu með að við getum haft áhrif og kem þá gjarnan inn á það sem formaður landsdeildarinnar kom inn á hér um samstarf eða samvinnu um norrænan her. Eins og gefur að skilja deilum við hv. formaður nefndarinnar engan veginn þeirri sýn eða skoðun að ástæða sé til að efla samvinnu norrænu þjóðanna með því að koma á fót sérstökum norrænum her. En — og ég horfi þá til heitisins Norðurlönd - afl til friðar, sem er formennskuáætlunin í norrænu ráðherranefndinni — við erum svo lánsöm á Norðurlöndunum að í yfir 200 ár höfum við búið við frið. Ég er ekki í nokkrum vafa um það og ég efast ekki um að sagnfræðingar, og ég er það ekki, að stór hluti af ástæðu þess að okkur, þessum þjóðum sem standa saman í dag að því sem heitir Norðurlandaráð, hefur í ríflega 70 ár tekist að standa saman að friði þrátt fyrir að hafa farið í gegnum mismunandi stjórnarfar er m.a. vegna þessara tengsla og þessara róta sem komið var inn á í fyrri ræðu. Við eigum sameiginlegar rætur á þessum vettvangi og við höfum borið gæfu til að rækta þetta og höldum áfram að rækta þetta. Mikilvægi norræns samstarfs verður, held ég, aldrei of oft áréttað.

Ég tek hins vegar líka undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur þegar hún bendir á að stundum sé það nú kannski meira í orði en á borði þegar við erum að tala um fjárveitingar. Ég veit að við deilum ekki öll sýn í því. Þegar við verðum þess áskynja, verandi þeirrar skoðunar að okkur finnst norræna samstarfið mikilvægt og við sjáum að við fáum heilmikið út úr því og getum lagt mikið til þess, þá verða að mínu mati líka að fara saman hljóð og mynd í því. Ef raunvirði, eins og sagt er, framlaga til þessa mikilvæga samstarfs hefur minnkað, hvort sem þátttöku eða aðild einstaka Norðurlanda í Evrópusambandinu er um að kenna að ekki, þá fara ekki alveg saman hljóð og mynd.

Þessu tengt: Eins og formaðurinn kom inn á og er getið í þessari ágætu skýrslu var síðastliðið ár ekki bara plagað af innrásinni í Úkraínu, sem eðli málsins samkvæmt tók töluvert yfir umræðu og umfjöllun á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar líka, heldur var töluverð umræða um akkúrat þessar áherslur, sem voru jú reyndar lagðar 2019 í síðustu formennskutíð Íslands, að færa hluta af því fjármagni, þeim stokki sem til væri inni í kerfunum, færa áhersluna og þá frekar úr menningu og menntun, sem sannarlega hefur kannski verið mesta vigtin í á undanförnum árum og raunar frá upphafi, yfir í þær áskoranir sem við stöndum sameiginlega frammi fyrir sem heimur þegar kemur að því að ná fram raunverulegri sjálfbærni og stemma stigu við þeirri loftslagsvá sem við stöndum frammi fyrir.

Það var mikil umræða á síðasta ári á fundum, ýmist í flokkahópunum eða í einstaka nefndum, og ég veit að það var líka í forsætisnefnd þó að ég eigi ekki sæti þar, um að þetta kunni að hafa verið of langt gengið. Við höfum rætt það á landsdeildarfundum hér, veit ég, inni í flokkahópunum, að eitt er að taka ákvörðunina, annað er að fylgja henni eftir og meta svo stöðuna á ákveðnum tímapunkti. Það er, held ég, eitthvað sem við getum sameinast um að gagnrýna, að ekki hafi verið gert, metið með nægjanlegum hætti hvaða áhrif þessi tilfærsla á fjármunum hefur þá á framgang mála þegar kemur að menningu og menntun. Einhvers staðar virðist ekki hafa verið farið nægilega yfir það hversu miklu hlutverki menning og menntun gegna í því að ná raunverulega fram árangri þegar kemur að því að berjast við loftslagsvána. Þetta er eitthvað sem ég treysti að sé í skoðun og ég treysti að við stöndum saman í að minna á og reyna að ná fram breytingu á og það eru auðvitað teikn um það, eins og við höfum séð.

Það hefur verið komið inn á það í fyrri ræðum hvernig Norðurlöndin, og þá í samstarfi við Eystrasaltslöndin, með systurstofnun okkar þar, þ.e. Eystrasaltsráðinu, stóðu saman að því að ræða okkur, með gestum, í gegnum þessar hörmungar sem á íbúum Úkraínu dundu fyrir rúmu ári síðan. Þetta er akkúrat dæmi um það hvernig samvinnan, hin norræna samvinna og svo aftur samvinna nágranna okkar aðeins lengra til austurs, getur skipt máli í að ná árangri í friðarmálum. Aftur kem ég að því að ég held að sameiginlegur her Norðurlanda sé ekki lausn í því. Við verðum að standa saman að því að boða frið, standa saman að því að leita friðsamlegra lausna. Öllu stríðir linnir jú á einhverjum tímapunkti og alltaf með samningum, ekki endilega með herafli sem hefur þessar hræðilegu afleiðingar á líf og limi fólks sem standa í því.

Eitt sem ég vil gjarnan koma inn á, vegna þess að hér kom hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, formaður landsdeildarinnar, inn á þetta með tungumálið, og það er að ein af þessum áskorunum, og ég held skemmtilegu áskorunum, sem Norðurlöndin standa frammi fyrir er einmitt tungumálið. Kannski eru það sérstaklega við Íslendingar sem erum með örmál, og það á við um sjálfstjórnarsvæðin líka, sem sjáum þessa þróun, þ.e. að samskiptatungumálið er ekki endilega norrænt mál. Í því samhengi langar mig að koma inn á, af því að ég veit að við erum öll sammála um það í landsdeildinni að mikilvægi túlkaþjónustunnar í þessu samstarfi verður aldrei ítrekað nægilega oft, að það að geta tjáð sig á sínu eigin tungumáli í samskiptum og samvinnu og samstarfi við kollega af Norðurlöndunum er mjög mikilvægt. Við, eðli málsins samkvæmt, erum ekki alltaf með túlk með okkur og getum sannarlega bjargað okkur og tekið þátt í samtölum á einhvers konar norrænu máli en að geta verið einhvers staðar með túlk sér til aðstoðar og talað frjálst og raðað orðunum saman eftir því sem hentar, miðað við það hvernig maður vill leggja áherslu á hlutina, er mjög mikilvægt. Ég er afar þakklátur fyrir þessa þjónustu sem við getum nýtt okkur og eigum það sameiginlegt með Finnum. Ég vildi reyndar gjarnan sjá að sjálfstjórnarhéruðin nytu þessarar þjónustu líka en það er önnur og dýpri pólitík.

Að lokum vil ég segja það, herra forseti, að ég tek heils hugar undir það sem fram hefur komið hér um að norrænt samstarf er okkur afar mikilvægt. Við getum ekki bara lagt heilmikið af mörkum í því heldur líka dregið upp myndir þar sem er augljóst að við þurfum að vinna saman. Ég hef nefnt þetta með friðaráhersluna. Minn flokkahópur, norræn vinstri græn, hefur lagt fram tillögur um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, allt í anda þess friðarboðskapar að við eigum að geta sameinast um það á Norðurlöndunum að, eins og stundum hefur verið sagt, friðlýsa svæðið gegn kjarnorkuvopnum. Önnur tillaga sem við drógum upp, sem ég veit að snertir okkur og er norðurskautsmál í leiðinni, og hefur verið til umræðu á vettvangi nefndanna er að við sameinumst um að reyna að koma einhverjum böndum á í dag óhefta umferð skemmtiferðaskipa um hafsvæði okkar hér í norðri. Við urðum þess áskynja þegar við hittumst í mínum flokkahópi á Grænlandi síðastliðið sumar að þetta er gegndarlaus ásókn og innviðirnir mjög takmarkaðir. Við þekkjum þetta úr íslensku samhengi þar sem við þó búum við innviði sem geta að einhverju leyti tekið á móti þessu en ásóknin er virkilega mikil. Í þessu felst ákveðin öryggisógn, að hafa ekki eitthvert „styr på det“, ég bið herra forseta, áður en hann ávítar mig, afsökunar á því að hafa ekki notað íslensku sem þingmál, og við getum unnið sameiginlega að því að koma einhvers konar böndum á það. Við eigum að nota norrænan vettvang til þess að ræða okkur niður á einhverja niðurstöðu um það sem við getum svo mögulega á vettvangi landsdeildanna eða einstakra flokka borið áfram innan okkar þjóðþinga.