Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

norrænt samstarf 2022.

832. mál
[19:51]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Forseti. Mig langar að þakka hv. þingmönnum, fulltrúum í Íslandsdeild, fyrir að taka þátt í þessari umræðu um skýrsluna sem ég held að sé mjög mikilvægt og sýni glöggt mikilvægi norræns samstarfs. Ég held að það fari vel á því að við verjum svolitlum tíma hér í að ræða mikilvægi þess.

Mér láðist í ræðu minni áðan að nefna hverjir skipa Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Það eru, ásamt þeirri sem hér stendur, Oddný G. Harðardóttir varaformaður, Ásmundur Friðriksson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Hanna Katrín Friðriksson og Orri Páll Jóhannsson, þetta er einstaklega vel skipuð landsdeild. Ég er mjög stolt af okkar fólki sem hefur staðið sig vel í þessum störfum. Eins og ágætlega var farið yfir hér í ræðum þá erum við auðvitað í flokkahópum. Þó að Norðurlöndin séu lík svæði og við séum oft sammála í stóru málunum er líka mikilvægt að pólitískt samtal eigi sér stað innan Norðurlandaráðs og þar geta áherslurnar verið mismunandi, eins og ég nefndi í ræðu minni í störfunum. Það kunna því líka að vera mismunandi áherslur á milli mín og hv. þm. Orra Páls Jóhannssonar þegar kemur að umræðum um her eða varnarmál.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka hæstv. samstarfsráðherra okkar, sem er Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Við förum með formennsku í ráðherranefndinni og hv. þm. Orri Páll Jóhannsson kom aðeins inn á það áðan. Umræðan sem hefur átt sér stað um fjármagnið, annars vegar hversu mikið við erum að borga og hins vegar hvernig því er varið, og sá niðurskurður sem hefur verið til menningarmála — þetta er málefni sem hefur verið til umræðu í töluvert langan tíma hjá Norðurlandaráði. Það er hægt að segja að það hafi verið ákveðin óánægja og ólga hjá Norðurlandaráði yfir því að ráðherranefndin væri svolítið einhuga í þessu og drífandi og væri ekki að hlusta nógu mikið á Norðurlandaráð. Hæstv. ráðherra Guðmundi Inga Guðbrandssyni til hróss þá hefur hann staðið sig mjög vel. Ég veit að hann hefur lagt mikinn tíma og metnað í það að eiga einmitt samtal við Norðurlandaráð. Hæstv. ráðherra var gestur okkar hér á fundinum þar sem hann fór einmitt yfir formennskuáætlunina og mikil ánægja var með það hvernig unnið hefði verið á síðustu vikum og mánuðum, nákvæmlega í því máli. Ég vona að það sé það sem koma skal, að Norðurlandaráð sjálft hafi meira fram að færa í umræðunni um fjármálin.

Eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir kom inn á áðan þá er þetta löng og mikil umræða. Þó að við skipum ólíka flokkahópa og kunnum að hafa aðeins skiptar skoðanir varðandi fjármagn og annað þá er það alveg ljóst út frá hagsmunum Íslands, og ég held að Íslandsdeildin sé sammála í því, að Ísland fær það mikið út úr norrænu samstarfi að það stendur ekki á okkur að greiða hærra fjármagn inn í Norðurlandaráð. Vandamálið liggur miklu frekar hjá stærri þjóðum.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vil bara minna okkur öll á að næstkomandi fimmtudagur er dagur Norðurlanda. Þá er 61 ár síðan skrifað var undir Helsingfors-samninginn sem við ræddum aðeins um áðan. Þess dags er venjulega minnst með því að draga fána Norðurlanda að húni hér fyrir utan þinghúsið og með sérstökum degi í Norræna húsinu. Ég vil bara hvetja okkur öll til þess að nýta daginn vel til að tala um norrænt samstarf og mikilvægi þess.