Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

Evrópuráðsþingið 2022.

783. mál
[19:55]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mun hér stikla á stóru í starfi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins árið 2022. Í umræðum á vettvangi þingsins á árinu bar hæst innrás Rússlands í Úkraínu, viðbrögð við henni og umræða um mögulegan fjórða leiðtogafund Evrópuráðsins og efni hans. Eins og flestum er eflaust kunnugt var Evrópuráðið stofnað 5. maí 1949 af tíu Vestur-Evrópuríkjum. Áður höfðu þjóðir sem leiddu þann undirbúning hist í maí 1948 í Haag og lagt grunninn að Evrópuráðinu á vettvangi umfjöllunar um mannréttindi og síðar Mannréttindadómstóls Evrópu. Aðildarríkin eru nú 46 talsins með samtals um 830 milljónir íbúa og mynda eina órofa pólitíska heild í álfunni, að Rússlandi, Belarús og Kosovo undanskildum en Rússlandi var vísað úr ráðinu í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu í febrúar 2022. Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríki, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Á Evrópuráðsþinginu eiga 306 fulltrúar sæti og jafn margir til vara. Hlutverk þingsins felst m.a. í því að eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar, þ.e. inn á vettvang Evrópuráðsins, hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á og vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og aukin tengsl þjóðþinga.

Af hálfu þingmanna Alþingis erum við þrjú sem sitjum í ráðinu. Auk þess sem hér stendur og hefur gegnt starfi formanns á nýliðnu ári voru aðalmenn í Íslandsdeild Evrópuráðsins Þórhildur Sunna Ævarsdóttir varaformaður og Birgir Þórarinsson. Varamenn voru Jódís Skúladóttir, Björn Leví Gunnarsson og Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru haldnir fjórum sinnum á ári, í janúar, apríl, júní og október, í viku í senn í Strassborg. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins. Þá eru einnig starfandi á þinginu níu fastanefndir og sex flokkahópar en auk þess er nokkur fjöldi þingmanna utan flokkahópa. Í þingfundaviku júní var skipuð tímabundið sérstök ad hoc-undirbúningsnefnd af hálfu þingsins vegna leiðtogafundarins og vinnu við að endurnýja og endurbæta sterkara Evrópuráð, stofnanir og þing. Var ég skipaður til setu í þeirri nefnd. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru var fyrsti fundur ársins haldinn með blönduðu fyrirkomulagi þar sem formönnum og varaformönnum landsdeilda var boðið að vera í Strassborg en aðrir þingmenn tengdust gegnum fjarfundabúnað.

Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu ákvað framkvæmdastjórn Evrópuráðsins í fyrsta sinn í sögu þingsins að boða til aukafundar. Eina dagskrármál fundarins var innrás Rússlands í Úkraínu. Niðurstaða þingsins var að rússnesk stjórnvöld hefðu brotið alvarlega gegn stofnskrá Evrópuráðsins og stæðu ekki við skuldbindingar sínar gagnvart ráðinu. Þingið lagði því til að ráðherranefndin færi fram á að rússnesk stjórnvöld drægju sig tafarlaust úr Evrópuráðinu eða, ef stjórnvöld færu ekki að tilmælum, vísaði Rússum úr Evrópuráðinu eins fljótt og auðið væri. Álitið var samþykkt einróma með 216 atkvæðum en þrjú sátu hjá. Sama dag og Evrópuráðsþingið ræddi álit sitt sendi utanríkisráðherra Rússlands framkvæmdastjóra Evrópuráðsins bréf þar sem tilkynnt var um ósk rússneskra stjórnvalda um að draga sig út úr Evrópuráðinu. Daginn eftir þingfundinn, 16. mars, ákvað ráðherranefndin að vísa Rússlandi úr Evrópuráðinu samdægurs. Aðrir þingfundir ársins fóru fram venju samkvæmt og án teljandi áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Utan þingfunda funduðu málefnanefndir þingsins en í upphafi árs fóru fundir fram í gegnum fjarfundabúnað.

Sá sem hér talar tók sæti í framkvæmdastjórn Evrópuráðsþingsins á fyrsta þingfundi ársins í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu en Ísland tók við formennsku í ráðinu af Írum í nóvember 2022. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var skipuð framsögumaður af hálfu laga- og mannréttindanefndar í málefnum mannréttindaverndar. Þá var hún einnig framsögumaður tveggja skýrslna. Á þingfundi í júní lagði hún fram skýrslu um hvernig koma mætti í veg fyrir mismunun á grundvelli bólusetningar og á þingfundi í október kynnti hún skýrslu um pólitíska fanga í Rússlandi. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir heimsótti jafnframt Úkraínu á vegum Evrópuráðsþingsins í júlí og tók þátt í kosningaeftirliti í Búlgaríu um mánaðamótin september, október. Þá tók Birgir Þórarinsson einnig þátt í kosningaeftirliti á vegum Evrópuráðsþingsins í Serbíu.

Stjórnarnefnd hélt sérstaka umræðu um mögulegan fjórða leiðtogafund Evrópuráðsþingsins á fundi sínum í Dublin í maí. Leiðtogafundir hafa verið haldnir þrisvar sinnum frá stofnun Evrópuráðsins árið 1949; í Vínarborg árið 1993, í Strassborg árið 1997 og Varsjá árið 2005. Á fundinum var lögð áhersla á nauðsyn þess að leiðtogar aðildarríkja Evrópuráðsins ræddu hvað hefði áunnist og hvað mistekist á þessum 70 árum sem liðin væru frá stofnun Evrópuráðsins. Viðbrögð Evrópuráðsins við innrás Rússa í Úkraínu í febrúar hefðu verið rétt og á leiðtogafundinum væru tækifæri til að taka afgerandi afstöðu í nýjum veruleika alþjóðastjórnmálanna. Á fundinum lýsti ég yfir stuðningi við það að skipulagður yrði fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins til að styrkja undirstöður stofnunarinnar og standa vörð um mannréttindi og lýðræði fyrir alla Evrópubúa. Þá vakti ég sérstaka athygli á því að Ísland væri tilbúið að vera gestgjafi slíks fundar eins og komið hafði fram í máli utanríkisráðherra á fundi ráðherranefndarinnar í Tórínó fyrr í maímánuði. Eins og öllum er kunnugt varð sú hugmynd ofan á að leiðtogafundurinn færi fram hér í Reykjavík 16. og 17. maí nk. Við það tilefni mun stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins einnig koma saman til fundar og fer hann fram daginn áður, mánudaginn 15. maí.

Vladímír Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þingfund Evrópuráðsþingsins í október með fjarfundabúnaði. Hann gagnrýndi ákvörðun þingsins sem tekin var árið 2019 um að samþykkja kjörbréf rússnesku landsdeildarinnar eftir nokkurra ára hlé á þátttöku þeirra eftir hernámið á Krímskaga. Hann fagnaði hins vegar viðbrögðum þingsins eftir innrásina í Úkraínu og að Rússum hefði verið vísað úr ráðinu í mars. Zelenskí sagði Evrópuríki aldrei hafa verið jafn sameinuð og nú. Saman hefðu ríkin einangrað rússnesk stjórnvöld og látið þau finna fyrir því að stríðinu fylgdu kostnaðarsamar afleiðingar. Nauðsynlegt væri að draga rússnesk stjórnvöld til ábyrgðar sem árásarríki og rétta yfir hverjum og einum stríðsglæpamanni. Þá kallaði Zelenskí eftir því að enn frekar yrði stutt við Úkraínu.

Síðasti fundur ársins fór fram í Reykjavík í lok nóvember þegar framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd komu saman í kjölfar þess að Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu fyrr í mánuðinum. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, flutti opnunarávarp. Tók ég þátt í báðum fundunum en auk mín höfðu einnig seturétt að þessu sinni félagar mínar í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins. Einnig bauð ég til móttöku í Alþingishúsinu fyrir þá sem fundina sóttu. Meðan á fundinum stóð var fjallað um ályktanir og tilmæli þingsins um hlutverk Evrópuráðsins, um lýðræðið á tímum neyðarástands í heilbrigðismálum, um áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á borgaralegt samfélag og fanga í Evrópu, um öryggi aðfanga í heilbrigðiskerfinu, um áskoranir í tengslum við rakningarapp, um vegferð þingsins í Jórdaníu í átt til aukins lýðræðis og um eftirlit Evrópuráðsþingsins með kosningum í Bosníu og í Búlgaríu, en stærsta mál fundarins var undirbúningur leiðtogafundar ríkja Evrópuráðsins og tillögur Evrópuráðsþingsins um efni hans og áherslur.

Virðulegi forseti. Ég hef nú stuttlega farið yfir starfsemi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins en vísa að öðru leyti til ársskýrslunnar í heild sem aðgengileg er á vef Alþingis. Ég vil einnig hér að lokum nota tækifærið og þakka þingmönnum Íslandsdeildar og starfsmönnum fyrir samstarfið á árinu.