Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar að tala um tvo mjög ólíka hluti en báða mjög mikilvæga. Í dag er víst alþjóðlegur dagur vatnsins. Það þarf að gefa vatnsskorti í heiminum gaum en hamfarir á heimsvísu tengdar vatnsskorti blasa við og geta aukist á næstunni að mati Sameinuðu þjóðanna. Það hefði kannski verið ágætt, alla vega ef ég hefði verið búin að fatta að alþjóðlegur dagur vatnsins væri í dag, að ræða þetta í tengslum við skýrslu hæstv. utanríkisráðherra sem við ræddum í gær, því að þetta er gríðarlega mikilvægt málefni sem við þurfum að horfa til með festu og af athygli vegna þess að líklegt er að átök um aðgang að vatni aukist í framtíðinni, og þegar kemur að réttlátum umskiptum er vatn og aðgangur að því eitt af því sem við þurfum að hugsa um.

Hitt sem mig langar að tala um er fæðingarorlof, sem hefur aðeins verið í umræðunni. Við í Vinstri grænum ræddum þessi mál á okkar landsfundi og við viljum skoða það að fæðingarorlofið verði lengt en teljum einnig brýnt að skoða bæði leikskólamálin, því að við þurfum að hafa þau í lagi þegar fæðingarorlofi lýkur, og eins fæðingarorlofsmálin út frá jafnrétti kynjanna og því sem við Íslendingar höfum haft sem áherslumál, þ.e. að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði í tengslum við fæðingarorlof.

Hér talaði ég um tvö gjörólík mál sem bæði snerta þó velferð fólks.