Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vék stuttlega að því í gær sem fór fram í ráðherrabústaðnum þegar þjóðaröryggisráð og framtíðarnefnd hittust þar í frjálsu hugarflæði. Það rann upp fyrir mér eftir þann fund hversu vannýttur mannauður okkar hér í þinginu er þegar að því kemur sem er ekki hið daglega brauð í störfum þingsins eða í óundirbúnum fyrirspurnum, þar sem hver markar sína sérstöðu og kemur kannski ágreiningsmálum á framfæri frekar en hitt. Þankatankur þingsins er það sem við þurfum núna þar sem við nýtum leiftrandi huga allra þeirra sem hér starfa með reglubundnum hætti, herra forseti, t.d. einu sinni í viku þar sem við komum fram í einingu um að hugsa saman. Þegar tveir koma saman verður þrefalt hugarafl, þegar 63 koma saman þá get ég lofað því að það verður tvöfalt það hugarafl sem venjulega væri ef við beindum sjónum okkar og augum að úrlausnum á þeim fjölþætta vanda eða áskorunum sem við stöndum andspænis. Þær eru óvenjumargar akkúrat um þessar mundir. Nýjasta vaxtahækkunin er enn ein áskorunin, enn ein ógnin við þá sem eru fyrir mjög hnípnir og áhyggjufullir, eðlilega. Hvernig eiga þeir að mæta mánaðamótunum?

Við erum með áskoranir eins og húsnæðismál og ýmislegt og við ættum að nýta leiftrandi huga þeirra sem hér starfa með markvissum hætti á uppbyggilegan hátt. Komum saman og hugsum saman upp lausnir sem okkur hefur kannski ekki tekist að eygja sem skyldi. Eflum samstöðu öllum til heilla sem hér búa og starfa. Þankatankur þingsins!