Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þrálát verðbólga er hvimleitt stef sem við þekkjum frá fornu fari og hagstjórn við þessar aðstæður er snúin, enda víða þörf á auknum framlögum. Við stöndum frammi fyrir því nú í kjölfar heimsfaraldursins, hvar ríkissjóði var beitt með markvissum hætti gegn efnahags- og félagslegum áhrifum faraldursins, að verðbólga hefur stóraukist á síðustu misserum. Vissulega er afkoma og skuldastaða ríkissjóðs mun betri en spár gerðu ráð fyrir. Þörfin er hins vegar brýn og áhrif verðbólgu og vaxtahækkana mikil á þau sem eiga ekkert undanfæri.

Við Vinstri græn lítum á það sem forgangsmál að verja þau sem lakast standa sem best fyrir áhrifum hennar. Vaxandi verðbólga og hækkandi vöruverð er þó alltaf áhyggjuefni en ríkisstjórnin fór í mótvægisaðgerðir sem miða að því að draga úr áhrifum verðbólgunnar á viðkvæma hópa. Þær breytingar fólust m.a. í því að hækka bætur almannatrygginga og framfærsluviðmið örorku- og endurhæfingarlífeyris en áfram þarf að gera betur þar.

Þá var grunnfjárhæð húsnæðisbóta fyrir leigjendur hækkuð og samþykkt að greiða út sérstakan barnabótaauka og endurspeglast þessi vilji stjórnvalda sömuleiðis í núgildandi fjárlögum. Það er ábyrgðarhluti að takast á við verðbólguna og það þurfum við að gera saman. Það þarf að endurspeglast í öllum ákvörðunum og það er alveg ljóst að við verðum að draga úr þenslunni. Ríkisstjórnin verður að sýna ábyrgð nú þegar styttist í framlagningu fjármálaáætlunar. Þar þarf að fara saman sambland af aðhaldi og tekjuöflun.

Eins og ég hef áður sagt tel ég eðlilegt að horft sé til þess að hækka bankaskatt, enda eru bankar vel aflögufærir. Það má vel auka tekjur ríkissjóðs með komugjöldum, t.d. með hækkun veiðigjalda á uppsjávarfisk, eins og ég hef áður nefnt, og þrepaskiptum fjármagnstekjum þar sem við þekkjum þá sögu að ríkustu 10% einstaklinga á Íslandi eiga um þrjá fjórðu hluta allra eigna á meðan eignaminnstu 30% eiga nánast ekki neitt.

Allt að einu, það sem liggur fyrir okkur hér og ríkissjóði er að horfa bæði til aðgerða á tekju- og gjaldahlið og við verðum að ná tökum á verðbólgunni. Ég vona svo sannarlega að félagar mínir í ríkisstjórninni (Forseti hringir.) hlusti á það sem hér er sagt þannig að hægt sé að afla tekna til að komast betur í gegnum þetta.