Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í ritstjórnargrein í Lögmannablaðinu í vikunni veltir Ari Karlsson lögmaður vöngum yfir því hvernig helförin hafi getað átt sér stað, út frá lögfræðilegu sjónarhorni. Fjallar lögmaðurinn þar um grein sem birtist í UCLA Law Review í september síðastliðnum, þar sem höfundur leitar svara við þeirri spurningu hvernig hið þýska réttarkerfi gerði stjórnvöldum kleift að svipta gyðinga mannréttindum sínum og setja að lokum helförina af stað þar sem 6 milljónum gyðinga var útrýmt. Hvernig gat slík ríkisstyrkt og lögmælt illska gerst í siðuðu samfélagi á 20. öld?

Niðurstaða höfundar er sú að þýskt samfélag, þ.m.t. dómstólar, dómarar, lögfræðingar og fræðimenn, hafi samþykkt og í mörgum tilfellum tekið undir og stuðlað að óheftu valdi nasista og kynþáttabundnu óréttlæti. Ég held að við getum flest tekið undir með lögmanninum sem fyrir áratug taldi að það væri ómögulegt að grundvöllur vestrænna lýðræðisríkja væri í nokkurri teljandi hættu, með leyfi forseta:

„Atburðir síðustu ára; upplýsingaóreiða og afneitun staðreynda, mannfjandsamleg orðræða og uppgangur pólaríseringar og popúlískra stjórnmálaafla sem ala á óánægju og að sjálfsögð mannréttindi minnihlutahópa séu á kostnað annarra hópa samfélagsins, aðsúgurinn að bandaríska þinghúsinu í ársbyrjun 2021 og innrásin í Úkraínu eru leiðarmerki þess að blikur séu á lofti.

Við þessar aðstæður er það hlutverk okkar lögmanna, dómara, fræðimanna og lögfræðistéttarinnar allrar að standa vörð um mannréttindi, lýðræðisskipulagið og réttarríkið og þá grundvallarstofnanir þess. Í því felst enginn afsláttur af því að ræða hlutverk og gagnrýna stofnanir samfélagsins, lagasetningu, eða einstaka úrlausnir.“

Þegar um grundvallarspurningar um réttindi eða samfélagsskipanina er að ræða er ekki nóg að skoða niðurstöðu út frá tilteknu máli heldur jafnframt hvaða víðtæku áhrif úrlausn hefur á fólk, (Forseti hringir.) samfélagsskipanina eða grundvöll réttarríkisins. Við það mat má okkur hvorki bresta mannúð né hugrekki.