Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Orkuöryggi.

[15:46]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst dagur múrmeldýrsins hafa runnið upp enn og aftur hér á hinu háa Alþingi. Ég hef ekki tölu á þeim skiptum sem við höfum farið upp í pontu og rætt um orkuskiptin við hæstv. umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra og það koma alltaf sömu svörin, það koma alltaf sömu línurnar.

Það liggur fyrir að orkuframleiðendur á Íslandi ráða því í hvað orkan fer. Þeir selja orkuna og þeir ráða til hverra þeir selja hana. Það er ekkert í löggjöfinni, það er ekkert í regluverkinu og ekki hefur ráðherrann flutt um það nein frumvörp eða lagt fram áætlanir sem tryggja það að hægt sé að forgangsraða orku til þess að tryggja raforkuöryggi heimila og venjulegra fyrirtækja utan stóriðju. Ekkert. Það liggur líka fyrir að 5% af orkuframleiðslunni tapast í flutningskerfinu og það eru nákvæmlega þau 5% sem við þurfum til að ljúka orkuskiptum á landi. Það liggur líka fyrir, hæstv. forseti, að orkuskipti á sjó og í flugi eru í þróun og já, við þurfum að vera tilbúin í það. En það snýst ekki um að framleiða 16 TWst. á Íslandi. Það gerir það ekki.

Hættum nú að tala eins og það að berjast við loftslagsvána snúist bara um að hæstv. ráðherra geti komið hér aftur og aftur og rætt það hvað þurfi að virkja mikið á Íslandi. Verkefnið er miklu flóknara en það og það er miklu mikilvægara en svo að við getum látið þessar klisjur yfir okkur ganga aftur og aftur á hinu háa Alþingi.