Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Orkuöryggi.

[15:48]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem er mjög nauðsynleg og hefur legið mjög þungt á Skagfirðingum þar til fyrir örfáum árum síðan þegar var bætt úr miklu öryggisleysi. Við kynntumst því 2019 þegar rafmagnið fór af bænum að það hafði gríðarlega alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir atvinnulíf og heimili, og það skapaðist eiginlega vandræðaástand. Það var ekkert bætt úr fyrr en þetta hættuástand komst á. Mér finnst svolítið vanta hérna í þinginu og hjá ráðamönnum almennt og jafnvel hjá fræga og fallega fólkinu sem er í fjölmiðlum að sýna því meiri skilning að byggja upp innviði úti á landi. Við búum við að sum byggðarlög, tökum bara Húnaþing vestra — vegirnir þar eru bara þannig að það er vart hægt að keyra skólabörn um þá. Svo horfir maður upp á það að þeir sem hafa þvælst fyrir virkjunum, eins og fyrir vestan — það er alveg borðleggjandi að það myndi tryggja orkuöryggi á Vestfjörðum ef það væri farið í Hvalárvirkjun. Þeir sem koma hér og gala hvað hæst um loftslagsmarkmið eru jafnvel að leggja stein í götu þessarar virkjunar og horfa upp á að það er verið að brenna olíu, jafnvel í milljóna lítra vís eins og í fyrra, vegna þess að það er ekki til trygg orka í rafmagnið fyrir vestan. Það verður að fara svolítið saman að leysa úr málum og tryggja hér öryggi, raforkuöryggi, og innviði í landinu þannig að þeir nái um allt land.