Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Orkuöryggi.

[16:01]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Öflugra flutningskerfi raforku er undirstaða orkuskiptanna hér á landi, orkunýtni og til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi. Flutningskerfi raforku er hluti af grunninnviðum samfélagsins og ein af mikilvægum forsendum fjölbreyttrar atvinnu- og byggðaþróunar. Brýnt er að flýta frekari uppbyggingu flutningskerfis raforku, að kerfið sé áfallaþolið, ekki síst til að bæta afhendingaröryggi í einstökum landshlutum. Auka þarf um leið samkeppnishæfni og ryðja þannig braut grænnar iðnaðaruppbyggingar og orkuskipta. Þannig verður hægt að nýta raforkukerfi þjóðarinnar sem byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum enn betur en gert er í dag.

Síðastliðinn vetur kom upp sú staða að orkuskerðing var vegna slæmrar vatnsstöðu í uppistöðulónum og því var þúsundum lítra af olíu brennt til að anna eftirspurn, t.d. í fiskimjölsverksmiðjum. Á hverju ári tapist raforka sem nemur rafmagnsnotkun 100.000 heimila — 100.000 heimila — þar sem flutningskerfi raforku er fullnýtt og ekkert svigrúm er til að bregðast við sveiflum í vatnsbúskap einstakra virkjanasvæða.

Í skýrslu átakshópsins sem vann skýrslu eftir óveðrið á norðurhluta landsins í desember 2019 kom fram að styrking meginflutningskerfis og svæðisflutningskerfis raforku væru meðal þeirra ráðstafana sem til framtíðar væru mikilvægastar og raunhæfastar til að tryggja betur afhendingaröryggi raforku. Helstu flöskuhálsar kerfisins væru tafir í leyfisveitingaferli fyrirhugaðra framkvæmda Landsnets, sem og tafir vegna undirbúningsframkvæmda í svæðisbundna flutningskerfinu. Enn fremur kemur þar fram að horfa verði til lagabreytinga til að tryggja skilvirkari málsmeðferð innviðaframkvæmda á borð við flutningskerfi raforku.

Að öllu framangreindu virtu er því ljóst að flýta þarf uppbyggingu flutningskerfis raforku til þess að stuðla að bættu afhendingaröryggi og orkunýtni en einnig til að ná fram markmiðum í orkuskiptum. Það mun auka álag á flutningskerfi raforku sem eykur enn fremur á nauðsyn uppbyggingar flutningskerfis raforku. Það verður gert til að tryggja raforkuöryggi og afhendingaröryggi grundvallarinnviða enda raforkukerfið og tryggt orkuframboð grundvallarþáttur í þjóðaröryggi og lífæð margra nauðsynlegra innviða.