Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Orkuöryggi.

[16:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra minnti okkur á það í ræðu við upphaf þessarar umræðu að 85% af orkuframleiðslu Íslands væri græn orka og að heimurinn væri nú ekki í þeirri stöðu sem hann er í dag ef hann væri allur eins og Ísland. Ég held við þurfum aðeins að fara að endurskoða þessa ímynd okkar af landinu okkar vegna þess að þrátt fyrir þessa gríðarlegu forgjöf þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum þá náum við að vera einhverjir mestu loftslagssóðar jarðar. Við gluðum út í andrúmsloftið meiri koltvísýringi en nokkurt annað ríki miðað við blessaða höfðatöluna. Þannig að ef allur heimurinn gerði eins og Ísland þá værum við nú í enn verri málum, held ég að tölurnar gætu sýnt okkur. En hæstv. ráðherra gerði vel í því í upphaflegu ræðunni sinni að benda á smátt frumvarp sem skiptir máli, varmadælufrumvarpið sem hann kallaði, vegna þess að þar er tekist á við eftirspurnarhliðina. Það er eitt af fáum málum sem við höfum séð á síðustu misserum takast á við eftirspurnarhliðina, að hjálpa almenningi að draga úr orkuþörf heimila sinna. Það mál hefði reyndar mátt víkka út og láta það taka til ekki bara fólks sem býr á köldum svæðum og þarf að kynda hús sín með raforku heldur mætti það ná til alls landsins þannig að við værum að minnka álagið á hitaveiturnar okkar. Síðan má fara að taka þessa hugmynd um að draga úr eftirspurn lengra og láta ekki bara almenning axla byrðar heldur stóriðjuna. Það var mjög fróðleg grein í Fréttablaðinu í dag þar sem Landvernd er búin að slá á það hversu mikið mætti draga úr orkuþörf íslenskrar stóriðju ef hún notaði bara jafn mikið rafmagn og sú norska. Þá allt í einu losnar um 4,7% (Forseti hringir.) af þeirri raforku sem er framleidd í landinu. 4,7% er sirka það sem þarf til að ná orkuskiptum á Íslandi og það er u.þ.b. það sem íslensk heimili nota — bara með því að stóriðjan þurfi að vanda sig aðeins betur.