Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

Orkuöryggi.

[16:14]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar hér í seinni umferð til að ræða raforkuöryggi. Það hefur nokkuð verið rætt hér í þessari ágætu umræðu um þá staðreynd að flutningskerfi raforkunnar er langt frá því að vera nægilega gott. Reyndar er staðan sú að 5% af framleiddri orku tapast úr kerfinu og við þekkjum öll aðra galla flutningskerfisins þó að það hafi sannarlega lent mismunandi þungt á landsmönnum eftir búsetu, eins og hér hefur verið farið yfir.

En þetta er ekki eina ógnin við raforkuöryggi landsmanna. Mig langar aðeins að fara yfir það og spyrja síðan hæstv. ráðherra hvað stjórnvöld eru að gera hér. Landsvirkjun t.d., sem er með 70% af allri raforkuframleiðslu, er með 50% af hinum almenna markaði, sem eru sem sagt kaupendur, fyrirtæki, heimili aðrir en stórnotendur. Það er áhyggjuefni að á sama tíma og Landsvirkjun er skuldbundin til að selja raforkuna inn á almenna markaðinn í gegnum sölufyrirtæki sem dreifa áfram til almennings og fyrirtækja, þá eru þeir aðilar sem dreifa hinum 50% ekki undir sömu kvaðir settir, þurfa ekki að hlíta sömu kvöðum. Það eru fyrirtæki á borð við Orkuveituna, Hitaveitu Suðurnesja, Orkubú Vestfjarða og fleiri, sem vinna annars vegar raforku og dreifa líka raforku sem þeir kaupa af Landsvirkjun. Þau gætu farið aðrar leiðir. Þannig að við getum séð fyrir okkur fyrirtæki í stóriðju sem fær ekki umbeðna orku hjá Landsvirkjun af því að hún er ekki til. Það gæti leitað til þessara fyrirtækja og þau valið að selja þessu fyrirtæki frekar en að fara með það á almennan markað. Og nú þegar verðmunurinn að farinn að minnka eftir síðustu samninga þá gæti alveg komið upp sú staða að þetta borgaði sig fyrir stóriðjuna til að svara eftirspurnartoppum eða toppum í framleiðslu.

Við höfum mögulegaverið heppin hingað til. Þessi staða hefur ekki komið upp. En hvernig ætlum við að tryggja að almenningur sé ekki að keppa við milljarðafyrirtæki um þessa raforku, af því að við vitum öll hvernig sú keppni færi? Hvað er verið að gera og hvernig? Og kannski stóra spurningin í ljósi þeirrar stöðu sem við erum í: Hvenær?