Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Jódís Skúladóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir andsvarið. Mig langar að árétta að það var nú ekki svo að meiri hlutinn hafi ekki viljað verða við fleiri atriðum. Í mikla vinnu var lagst, bæði í ráðuneytinu og af okkur nefndarmönnum, við að finna útfærslu á þessu. Niðurstaðan varð hins vegar sú að þetta væri í raun ógerlegt. Byggir það fyrst og fremst á þeim ólíku lögum sem gilda víða og þeim miklu breytingum sem verða á lagaverkinu milli landa með þessum breytingum.

Eins og fram hefur komið eftir ábendingar frá umboðsmanni Alþingis og fleirum þá hefur framkvæmdinni verið breytt og ég held að við getum treyst á að það sé þannig að alltaf sé litið til þess að staða þeirra sem þiggja eða eiga þarna rétt á greiðslum sé ekki lakari en áður, að það sé alltaf horft til þess að niðurstaða í máli hvers einstaklings sé með þeim hætti að hans hagsmuna sé alltaf gætt.

Það var annað varðandi þetta, þ.e. að málin eru að sjálfsögðu fjölmörg og þau eru eins ólík og þau eru mörg. Það gæti orðið mjög flókið tæknilega hvað varðar framkvæmd laganna að ákvarða í einu máli í einhverjum mánuði, forsendur og aðstæður eru breyttar en samt þarf að beita lögum við framkvæmdina. Það getur orðið misræmi í framkvæmd laganna sem býður þá upp á ójafnræði milli einstaklinga.