Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá 1. minni hluta velferðarnefndar.

Fyrsti minni hluti velferðarnefndar er sammála markmiði frumvarpsins um skýrleika og kaflaskiptingar en telur nauðsynlegt að kveða með skýrari hætti á um nokkrar greinar frumvarpsins þannig að enginn vafi leiki á um túlkun þeirra við framkvæmd laganna.

Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að lög séu ávallt skýr og skiljanleg þeim sem byggja rétt sinn á þeim og tekur undir umsögn Öryrkjabandalagsins við frumvarpið og leggur fram breytingartillögur í samræmi við þá umsögn.

Ég ætla, forseti, að renna yfir skýringar á þessum breytingartillögum sem fylgja nefndarálitinu. Í fyrsta lagi er það ávinnsla réttinda í b-lið 1. mgr. i-liðar 7. gr. frumvarpsins er að finna nýmæli um að þeir sem voru tryggðir hér á landi við 18 ára aldur og metnir til a.m.k. 75% örorku frá 18 ára aldri eigi rétt til greiðslna örorkulífeyris að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Samkvæmt athugasemdum í greinargerð er ákvæðinu ætlað að vera til hagsbóta fyrir unga öryrkja. Á það hefur þó verið bent að reglan gagnist ekki öllum ungum öryrkjum, heldur einungis þeim fámenna hópi sem er búsettur hér á landi og er metinn til örorku við 18 ára aldur. Utan falla ungir öryrkjar sem eru búsettir erlendis við 18 ára aldur, vegna ástæðna sem þeir voru ekki sjálfráðir um, t.d. vegna ákvörðunar foreldra sinna. Jafnframt kunna að vera í þeim hópi einstaklingar sem eru að ljúka námi á framhaldsskólastigi erlendis.

Mikilvægt er að jafnræðis sé gætt þannig að ákvæðið taki til breiðari hóps ungra öryrkja. Því er lögð til sú breyting að miðað sé við að viðkomandi sé tryggður hér á landi við 25 ára aldur. Er hér gætt samræmis við skilgreiningu ungmenna í 1. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007. Með þessu er leitast við að veita ungum öryrkjum aukið svigrúm til þess að taka ákvörðun um eigin búsetu. Jafnframt er lagt til að fella úr ákvæðinu vísan til þess að viðkomandi þurfi að hafa verið metinn til a.m.k. 75% örorku við 18 ára aldur enda þykir eðlilegt að ákvæðið nái jafnt til þeirra ungu öryrkja þar sem hefur ekki verið metin eða komin fram við 18 ára aldur.

Þarna er breytingin falin í því að við miðum við 25 ára aldur sem er skilgreining á hvað er ungmenni í öðrum lögum. Með því að gera þetta myndi þessi góða breyting ná til hópsins alls sem um ræðir.

Þá er það um tekjur maka, sem við ræddum hér áðan, ég og hv. framsögumaður nefndarálits meiri hlutans. Í 6. mgr. o-liðar 7. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að sú regla haldist óbreytt að fjármagnstekjur maka hafi áhrif á greiðslur. Lengi hefur verið bent á að þessi undantekning frá þeirri meginreglu laganna að tekjur maka hafi ekki áhrif á greiðslur sé óeðlileg. Enginn munur er á fjármagnstekjum og öðrum tekjum með tilliti til áhrifa þeirra á möguleika lífeyrisþega til framfærslu. Þá hefur verið dregið í efa að þessi tilhögun fái samrýmst niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 125/2000. Í dómi réttarins í máli nr. 795/2017 var þessi regla talin standast einvörðungu vegna heimildarinnar í 11. mgr. 16. gr. laganna til að dreifa fjármagnstekjum, sem leystar hafa verið út í einu lagi, yfir 10 ár, en sú heimild var í dóminum talin eiga við um fjármagnstekjur maka sem hefðu áhrif á greiðslurnar. Einn dómari skilaði sératkvæði og taldi ákvæðið ekki standast stjórnarskrá.

Aðeins um þetta, forseti. Það eru mjög margir sem taka út tekjur sínar í fjármagnstekjum. Eigi það við um maka þeirra sem þurfa að reiða sig á lífeyri þá koma tekjur makans til skerðingar. Að okkar mati í minni hlutanum á ekki að skipta tekjum makans upp í launatekjur og fjármagnstekjur heldur eiga bara engar tekjur makans að koma til skerðingar. Þetta er líka spurning um fjárhagslegt sjálfstæði. Þó að þeir sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar séu nú ekki vel haldnir þá er ómögulegt að í lögum sé gert ráð fyrir að þeir séu upp á maka sinn komnir fjárhagslega að öllu leyti hvað þetta varðar.

Og síðan með tekjur barna, eins og við ræddum líka hér áðan. Börn undir 16 ára aldri eru ekki sjálfstæðir skattaðilar séu þau á framfæri foreldra sinna og tekjur þeirra, aðrar en atvinnutekjur, skattlagðar sem tekjur foreldris. Slíkar tekjur, þar með taldar fjármagnstekjur barns, geta því haft í för með sér skerðingu á greiðslum samkvæmt almannatryggingalögum þó að þær tilheyri ekki lífeyristaka. Slík skerðing er með öllu óeðlileg í ljósi þess að engin framfærsluskylda hvílir á barni gagnvart foreldri og ekki eðlilegt að foreldri sé sett í þá stöðu að þurfa að ganga á eignir barns með þessum hætti til að geta framfært sig og barnið.

Ég held, forseti, að við ættum að geta náð samstöðu um þetta réttlætismál. Það er líka fráleitt að þessi skilaboð skuli vera innifalin í þeim lögum sem samþykkt eru hér á Alþingi, að það sé einhver skylda á barninu að sjá fyrir foreldri sínu ef foreldri þarf að treysta á lífeyri. Þetta er réttlætismál og ég vona að tillögu okkar í minni hlutanum um að breyta þessu til betri vegar verði vel tekið hér í þingsal þegar málið gengur til atkvæðagreiðslu.

Síðan er breytingartillaga um útreikning og endurreikninga. Í 5. mgr. r-liðar 7. gr. frumvarpsins um útreikning og endurreikning kemur fram að þrátt fyrir meginreglu 1. mgr. ákvæðisins sé við útreikning á greiðslum samkvæmt III. og IV. kafla laganna, sbr. einnig 13. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, heimilt að telja atvinnutekjur til tekna greiðsluþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra er aflað. Skal Tryggingastofnun við endurreikning greiðslna, sbr. 3. mgr., gera samanburð á útreikningi heildargreiðslna hvers mánaðar, annars vegar miðað við 1/12 af atvinnutekjum ársins og hins vegar miðað við atvinnutekjur í þeim mánuðum sem þeirra er aflað. Beita skal þeirri reglu sem leiðir til hærri greiðslna.

Í ákvæðinu er hins vegar ekki vísað til lífeyrissjóðstekna. Okkur í minni hlutanum finnst óeðlilegt að gera greinamun á milli framfærslutekna eftir því hvort um sé að ræða lífeyrissjóðstekjur eða atvinnutekjur í þessu samhengi. Þess vegna leggjum við til að bætt verði við ákvæðið vísan til lífeyrissjóðstekna.

Þá er komið að samspili við milliríkjasamninga. Samkvæmt 1. mgr. e-liðar 12. gr. frumvarpsins er ríkisstjórn heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Hafi gagnkvæmur milliríkjasamningur verið gerður við ríki þar sem einstaklingur á bótarétt fer um samspil bóta frá tveimur ríkjum eða fleiri eftir nánari ákvæðum samningsins, sbr. 4. mgr. b-liðar 12. gr. Þessi framkvæmd er nánar tryggð í 4. mgr. i-liðar 7. gr. frumvarpsins en af ákvæðinu leiðir að við reikning framtíðartímabila við ákvörðun réttindahlutfalls megi einnig víkja frá reglum laganna.

Samkvæmt frumvarpinu er það hlutverk ríkisstjórnar og ráðherra að gera milliríkjasamninga og víkja frá ákvæðum laganna sýnist þeim svo. Það kemur svo í hlut Tryggingastofnunar að framkvæma slíka milliríkjasamninga en við útreikning bóta fer um samspil bótaréttar eftir umræddum samningum, en auk þess geta þeir haft áhrif á útreikning framtíðartímabila. Framkvæmdarvaldinu er þannig falið að gera og framkvæma milliríkjasamninga um almannatryggingar og ákvarða hvaða áhrif þeir hafa á rétt einstaklinga.

Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal öllum þeim sem þess þurfa tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Í ákvæðinu felst skylda löggjafans til þess að kveða á um tiltekin lágmarksréttindi þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda, í lögum. Þeim áskilnaði hefur löggjafinn m.a. fullnægt með lögum um almannatryggingar. Af framangreindri lagaáskilnaðarreglu leiðir einnig að óheimilt er að skerða þau félagslegu réttindi sem löggjafinn hefur kveðið á um, nema með lögum.

Því er mikilvægt að framkvæmdarvaldinu sé ekki falið óheft ákvörðunarvald um að víkja frá lögunum. Fæli það í sér brot gegn framangreindum lagaáskilnaði 76. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttarins, ef kveðið er á um lakari rétt í milliríkjasamningi eða honum beitt með þeim hætti að það leiddi til lakari réttar en löggjafinn hefur tryggt með lögum hverju sinni.

Það er því nauðsynlegt, forseti, að kveða á um valdmörk framkvæmdarvaldsins í þessum efnum í lögum, til þess að tryggja að öll njóti þess réttar til aðstoðar sem löggjafinn hefur tryggt þeim í lögum hverju sinni. Þessi nauðsyn endurspeglast sérstaklega í því að mörg dæmi er að finna um að Tryggingastofnun hafi beitt reglum milliríkjasamninga með íþyngjandi hætti þannig að einstaklingar njóti lakari réttar en lög um almannatryggingar kveða á um. Slík mál hafa m.a. komið til kasta umboðsmanns Alþingis og dómstóla, en af úrlausnum þeirra leiðir m.a. að röng túlkun Tryggingastofnunar á Evrópureglum hefur leitt til mikilla skerðinga fyrir stóra hópa fólks. Hafa slíkar ólögmætar skerðingar haft gríðarlega neikvæð áhrif á lífsafkomu og lífsgæði fólks sem eiga þar undir. Er því afar mikilvægt að tryggja í lögum að slíkt geti ekki átt sér stað.

Af þessum sökum leggjum við í minni hlutanum til að við b-lið 12. gr. frumvarpsins verði bætt áskilnaði sem feli í sér að ekki sé unnt að beita milliríkjasamningum með íþyngjandi hætti, þannig að það leiði til lakari réttar en rétthöfum er tryggður samkvæmt lögum. Með þessu væri tryggt að framkvæma yrði samanburð á þeim réttindum sem viðkomandi nyti samkvæmt lögum og þeim sem hann nýtur samkvæmt viðkomandi milliríkjasamningi með hliðsjón af réttindum hans í viðkomandi ríki. Leiddi samanburðurinn í ljós að viðkomandi nyti lakari réttar en hann nyti annars samkvæmt lögunum, skyldi ekki beita ákvæðum samningsins með slíkum íþyngjandi hætti.

Herra forseti. Við í minni hlutanum leggjum mjög mikla áherslu á þessa breytingartillögu og satt að segja bjuggust við við að þetta yrði kannski tillaga sem meiri hlutinn hefði getað hugsað sér að fallast á, vegna þess að hún er aðeins um að það sé skýrt í lögunum að verði milliríkjasamningum beitt þá verði það ekki til þess að viðkomandi fái lakari niðurstöðu en hann hefði fengið samkvæmt lögunum hefði milliríkjasamningum ekki verið beitt. Milliríkjasamningar eiga að vera ívilnandi. Þeir eiga að verða til þess að bæta stöðu fólks en ekki til þess að setja það í fjárhagsleg vandræði.

Eins og ég sagði í upphafi þá viljum við í minni hlutanum að lög séu skýr og að það séu ekki skildar eftir stórar gloppur fyrir framkvæmdarvaldið til túlkunar eins og verið er að gera í frumvarpinu sem hér um ræðir, sem á samt að vera til að gera betur. Þá væri svo einfalt mál að segja bara: Þetta er svona. Þessir samningar eru hér. Það er heimilt að víkja frá lögunum ef milliríkjasamningar leiða ekki til þess að staða viðkomandi verður verri. Þetta er lítil breyting en hún skiptir miklu máli og skilur þá ekki eftir stórt gap til túlkunar fyrir framkvæmdarvaldið og fyrir Tryggingastofnun. Þessi litla breyting, ef ég skil málflutning meiri hlutans rétt, er bara lýsing á þeirra vilja og lýsing á anda laganna og þá er mikilvægt að orðin standi í lagaákvæðinu svo að ekki verði um það villst. Ef þessi breytingartillaga minni hlutans myndi fram ganga myndi það líka auka traust viðkomandi sem þurfa að treysta á lög um almannatryggingar, lög um félagsþjónustu og á túlkun Tryggingastofnunar. Þetta myndi verða til þess að fólk væri ekki í neinum vafa og öll tortryggni hvað þetta varðar væri þá úr sögunni. Það er mikilvægt að það verði svo.

Þá, forseti, er komið að ákvæðinu um árlega breytingu fjárhæða. Í h-lið 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að greiðslur almannatrygginga, svo og greiðslur samkvæmt 42. gr. og fjárhæð samkvæmt 28. gr., skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skuli m.a. taka mið af launaþróun. Í framkvæmd hefur verið breytilegt hvaða mælikvarðar eru lagðir til grundvallar. Þessi óskýrleiki hefur átt þátt í því að greiðslur samkvæmt lögunum hafa dregist verulega aftur úr launaþróun. Nú er það svo, forseti, að munurinn á grunngreiðslunum og lægstu launum í landinu er meira en 100.000 kr. á mánuði. Bilið þarna á milli hefur vaxið ár frá ári vegna þessara viðmiða sem miðað hefur verið við. Þar hefur t.d. aldrei verið tekið tillit til launaskriðs.

Þegar lögum um kjararáð var breytt árið 2019 var tekið upp nýtt fyrirkomulag við útreikning launa þingmanna og annarra ráðamanna sem eru ekki með verkfallsrétt. Þar var Hagstofu Íslands falið að reikna út hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Hér er lagt til að ákvæði h-liðar 12. gr. frumvarpsins verði breytt með sama hætti. Með þessu er lagt upp með að tryggja að þau viðmið sem lögð séu til grundvallar séu nægilega skýr til þess að tryggt sé að lífeyrir haldi í raun í við verðlag og launaþróun.

Öryrkjar og þeir sem eldri eru, sem þurfa að treysta á greiðslur Tryggingastofnunar, geta ekki farið í verkfall frekar við hér, alþingismenn. Það er skrýtið að vera með einhver önnur viðmið fyrir alþingismenn en fyrir öryrkja og þá sem eldri eru í þessu tilliti. Það er betra að hafa bara sömu viðmið. Það myndi líka, forseti, verða til þess að draga úr tortryggni og auka traust og skýrleika hvað þetta varðar.

Að lokum eru það mæðra- og feðralaunin sem hv. þm. Jódís Skúladóttir, sem er framsögumaður fyrir nefndarálits meiri hlutans, sagði að meiri hlutinn væri ánægður með og myndi samþykkja, sem gleður mig og okkur öll í minni hlutanum afskaplega mikið. Þetta gengur út á það að í 18. gr. frumvarpsins verði m.a. lagðar til breytingar á 4. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Breytingarnar fjalla um útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri og skerðingu hennar vegna annarra tekna lífeyrisþega. Samkvæmt gildandi lögum skerða allar bætur uppbót á lífeyri. Bent hefur verið á að rökrétt sé að undanþiggja mæðra- og feðralaun samkvæmt 2. gr. laganna, enda um að ræða greiðslur sem ætlaður eru til að mæta viðbótarkostnaði einstæðra foreldra vegna framfærslu barna. Þarna er réttlætismál sem, sem betur fer, virðist ætla að fara hér í gegn við atkvæðagreiðslu.

Að teknu tilliti til þess sem að framan greinir leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef nú farið yfir og eru tilteknar í nefndaráliti minni hlutans.

Guðbrandur Einarsson, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur þessu áliti en annars skrifa undir álitið sú sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Halldóru Mogensen og Guðmundi Inga Kristinssyni.

Herra forseti. Það er von mín að vinnan við almannatryggingar og endurskoðun á þeim sem núna stendur yfir skili árangri. Við sem höfum verið lengur en aðrir þingmenn á þingi höfum náttúrlega horft á þetta gerast ár eftir ár. Það eru settar saman nefndir sem eiga að sjá til þess að einfalda almannatryggingakerfið og gera það betra og gagnsærra og réttlátara og það hefur ekki gengið eftir. Ég vona að nú sé komið að því að niðurstaða fáist og að samstaða náist um að gerðar verði jákvæðar og góðar breytingar á kerfinu. Það er afar slæmt að þeir sem þurfa að reiða sig á kerfið geti ekki með nokkru móti skilið út á hvað það gengur og geti þá ekki gætt að réttindum sínum. Það er líka mjög slæmt að alþingismenn skilji hvorki upp né niður í kerfinu og viti oft ekki hvaða áhrif tillögur þeirra sem þeir leggja fram í góðri trú hafa. Ég hef nokkrum sinnum lagt fram tillögur eða verið með tillögur í smíðum og leitað til Öryrkjabandalagsins og þau segja: Ekki leggja þetta fram. Þetta verður bara til þess að ef greiðslurnar hækka hér þá lækkar á öðrum stað kannski enn meira og staðan verður verri.

Það er augljóst mál að við verðum að sameinast um að laga þetta kerfi og við verðum að sjá til þess að þeir sem þurfa að treysta á greiðslur almannatrygginga fái í það minnsta við sömu kjör og búi við sömu kjör og launamenn á lægstu launum. Það er þjóðarskömm, leyfi ég mér að segja, að gapið skuli stækka ár frá ári á milli lægstu launa og bóta. Það er okkur til skammar. Við þurfum að taka á því máli. Það er búið að reikna út hvað það kostar. Við erum rík þjóð. Mig minnir að við séum í 11. sæti yfir ríkustu ríki heims og við hljótum að geta séð til þess að þeir sem þurfa á þessum stuðningi að halda, að þeim sé ekki haldið í fátækragildrum. Ég hef lokið máli mínu.