Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[17:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, réttindavinnslu og breytta framsetningu. Ég vil byrja á að segja að það er frábært að það skuli vera byrjað á að vinna þessa vinnu og svo enginn misskilningur sé uppi þá styð ég það heils hugar. En því miður, miðað við þann langa tíma sem það hefur tekið að fá breytingar á kerfinu í gegn og allar þær nefndir sem hafa unnið að þeim breytingum, þá er reynslan sú að það virðist vera virkilega erfitt að koma einhverju skikki á lög um almannatryggingar. Ég styð af heilum hug breytingartillögu minni hlutans sem hv. þm. Oddný Harðardóttir var að flytja hérna áðan. Þar sem það var búið að opna á þessar breytingar í almannatryggingalögunum þá taldi ég og vonaði heitt og innilega að það yrðu gerðar fleiri breytingar núna, að ríkisstjórnin sæi til þess a.m.k. að koma í gegn þessum einföldu breytingum í sjálfu sér sem kosta ekki neitt en eru hreinlega spurning um mannréttindi og jafnvel spurning um hvort sum ákvæði í þessum lögum brjóti ekki hreinlega stjórnarskrá og þau eru alveg pottþétt mörg þarna inni sem stæðust það aldrei að vera þarna inni ef við værum búin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Það er alveg á hreinu.

Við erum að tala um einföldun á þessum bútasaumaða óskapnaði sem almannatryggingalögin eru og mér sýnist að það verði þrautin þyngri að gera þetta einfalt og koma þessu á mannamál. Bara til að sýna ykkur og skýra út þær aukabreytingar sem ég vil gera á lögunum þá ætla ég bara að lesa hér upp úr breytingartillögu minni. Ef ég les þetta upp svona í röð þá er þetta eiginlega illskiljanlegt:

„1. Við 7. gr. a. Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. g-liðar komi: 720.000 kr.

b. 2. málsl. 3. mgr. g-liðar orðist svo: Atvinnutekjur teljast ekki til tekna við útreikning ellilífeyris.

c. 2. málsl. 4. mgr. g-liðar orðist svo: Atvinnutekjur teljast ekki til tekna við útreikning hálfs ellilífeyris.

d. 3. mgr. o-liðar orðist svo: Fjármagnstekjur, sbr. 11. tölul. 2. gr., skulu ekki teljast til tekna við útreikning á greiðslum samkvæmt þessum kafla.

e. Í stað fjárhæðarinnar „2.575.220 kr.“ í 4. mgr. o-liðar komi: 5.030.000 kr.

f. Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. málsl. 5. mgr. o-liðar komi: 3.155.000 kr.

g. Í stað fjárhæðarinnar „328.800 kr.“ í 2. málsl. 5. mgr. o-liðar komi: 720.000 kr.

h. X-liður falli brott.

2. Á undan a-lið 2. tölul. 22. gr. komi nýr stafliður, sem orðist svo: Orðin „90% af“ í 2. mgr. 3. gr. laganna falla brott.“

Hversu margir hérna inni skildu þetta? Fyrst þegar ég las þetta upp þá hugsaði ég: Bíddu, eru þetta einhver ný lög? Hvað er verið að tala um? Og ég var að gera þetta sjálfur. Þetta sýnir fáránleikann í þessum lögum. Það vantar, því miður, einfaldleika og að þetta sé sett þannig upp og með þannig málfari að þeir sem eiga að lifa í þessu kerfi geti skilið þetta ósköp auðveldlega.

Í greinargerð með breytingartillögu minni segir:

„Lagt er til að hækka frítekjumörk laga um almannatryggingar til samræmis við þróun vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna frá 3. ársfjórðungi 2008. Þá stóð vísitalan í 59,1 stigi en samkvæmt nýjustu tölum er hún 141,8 stig og hefur því hækkað um 140%. Lagt er til að kveðið verði á um að ellilífeyrir skerðist ekki vegna atvinnutekna og jafnframt að örorkulífeyrir og tekjutrygging skerðist ekki vegna fjármagnstekna. Einnig er lagt til að fella brott x-lið 7. gr. frumvarpsins sem kveður á um hið svokallaða vasapeningafyrirkomulag. Þá er lagt til að fella brott þá sérreglu sem kveður á um að félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða skuli aðeins nema 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris.“

Ekki skýrði þetta nú hlutina auðveldlega. En nú ætla ég að reyna að koma með skýringu á mannamáli um hvað er verið að fjalla hér.

Tökum fyrst a-lið: „Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. málsl. 3. mgr. g-liðar komi: 720.000 kr.“ Hvað er ég að tala um þarna? Þarna er lagt til að almennt frítekjumark ellilífeyris hækki um 140% til samræmis við breytingu á vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna frá 2008 og verði 720.000 kr. á ári. Þetta er bara uppfært samkvæmt vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna. Það þarf að hækka þetta um 140%. Þetta er ekki mjög flókið þegar maður áttar sig á því um hvað er verið að tala.

Tökum b-liðinn: „2. málsl. 3. mgr. g-liðar orðist svo: Atvinnutekjur teljast ekki til tekna við útreikning ellilífeyris.“ Í c-lið er einnig lagt til að atvinnutekjur teljist ekki til tekna við útreikning hálfs ellilífeyris. Þessar breytingar fela í sér að það verði hætt að skerða ellilífeyri vegna atvinnutekna. Þetta er ekki flókið. Það á ekki að skerða ellilífeyri vegna atvinnutekna. Ég segi bara: Ríkið á bara að þakka fyrir þá ellilífeyrisþega sem vilja vinna. Þegar þeir vinna þá borga þeir sína skatta, einfalt mál. Hættum að refsa þeim fyrir að vinna. Hvetjum þá til þess og ríkið ætti að þakka þeim fyrir að fá skatttekjur þeirra en ekki að letja fólk til þess. Sérstaklega er það furðulegt þegar það vantar fólk í vinnu.

Þá förum við í d-lið: „3. mgr. o-liðar orðist svo: Fjármagnstekjur, sbr. 11. tölul. 2. gr., skulu ekki teljast til tekna við útreikning á greiðslum samkvæmt þessum kafla.“ Þarna er lagt til að kveðið verði á um að fjármagnstekjur leiði ekki til skerðingar á örorkulífeyri og tengdum greiðslum, tekjutryggingu og fleiru. Þarna er alveg stórfurðulegt fyrirbrigði í gangi vegna þess að öryrkjar og ellilífeyrisþegar eru nú sennilega ekki með gífurlega fjármuni í söfnun. Einhverjir þeirra, sem betur fer, en ekki margir. Þeir sem eru að reyna að safna einhverju eru með neikvæða vexti í dag. En það dugir ekki ríkinu að taka 22% fjármagnstekjuskatt af því, það er ekki nóg fyrir það, því ef þeir fara yfir ákveðna upphæð er sett full skerðing á móti. Þetta þýðir eiginlega á mannamáli að það er 65–70% skerðing hjá þeim sem eru að reyna að safna. Þetta kallast á mannamáli að skatta og skerða tap. Hverjir gera það? Jú, ríkisstjórnin. Ég veit ekki hvort hún er stolt af því en það hefði verið mjög einfalt að taka þetta út núna og hefði ekki kostað ríkissjóð mikið en skiptir þá sem þetta varðar miklu máli. Þetta gerir það líka að verkum að það er alveg útilokað fyrir öryrkja að ætla að reyna að fara að safna peningum til að kaupa sér kannski íbúð. Það er gjörsamlega útilokað.

Tökum e-lið: „ Í stað fjárhæðarinnar „2.575.220 kr.“ í 4. mgr. o-liðar komi: 5.030.000 kr.“ Þarna er lagt til að frítekjumark örorkulífeyris hækki um 140% til samræmis við breytingar á vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna frá árinu 2008 og verði 5.030.000 kr. á ári. Þarna erum við að taka á því að núna er ríkisstjórnin stolt búin að setja það fram að frítekjumark öryrkja sé 200.000 kr. en samkvæmt þessu ætti það að vera helmingi hærra ef það hefði verið uppreiknað samkvæmt vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna. Það segir okkur að það yrði líka miklu nær því ef öryrki er að vinna á einhverjum stað, segjum í verslun eða einhvers staðar, og meðallaunin í versluninni eru, segjum bara 500.000 kr., þá er auðvitað alveg fáránlegt að byrja að skerða viðkomandi fyrr en kannski er komið yfir þá upphæð sem þarna er um að ræða, 500.000 kr. vegna þess að um leið og hann er kominn yfir er hann kannski kominn með betri kjör en starfsmaðurinn við hliðina á honum. En við megum aldrei gleyma því að öryrkjar bera ýmsan aukakostnað sem íþyngir þeirra tekjum og veldur því að þeir þurfa að borga oft meira í ýmislegt, bæði lyf og læknisþjónustu og fleira.

Þá erum við komin að f-lið: „Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. málsl. 5. mgr. o-liðar komi: 3.155.000 kr.“ Þarna er lagt til að frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna hækki um 140% samkvæmt breytingu á vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna frá 2008 og verði 3.155.000 kr. Hér er miðað við hækkun frá þeirri fjárhæð sem frítekjumarkið stóð í árin 2008–2022 og til stendur að viðhalda núgildandi frítekjumarki í ákvæði til bráðabirgða, en betur færi á að kveða á um það í lagagreininni sjálfri enda er frumvarpið ætlað til einföldunar lagatextans. Sú grein sem hér um ræðir hefur enn að geyma hið löngu úrelta gamla frítekjumark, 300.000 kr. á ári, og lagt er til að það verði 3.155.000 kr.. á ári eða 263.000 kr. á mánuði. Þetta er bara til þess að einfalda kerfið vegna þess að þetta hefur alltaf verið plástrað, þarna hefur alltaf verið plástrað ofan á aftur og aftur. Það er einmitt það sem hefur verið gegnumgangandi með þetta kerfi, þetta bútasaumaða kerfi. Það er alltaf verið að búa til einhverja búta hér og þar og það endar alltaf með þeim ósköpum að kerfið verður flóknara og flóknara. Við höfum orðið vitni að því hvernig svona lagasetning hefur farið fram, þegar það gleymdist að setja inn skerðingar lífeyrissjóðstekna á sínum tíma. Málið vannst í héraðsdómi og ríkið varð að gera svo vel og borga ellilífeyrisþegum. Þá komust ellilífeyrisþegar að því svart á hvítu þegar þeir fengu endurgreitt hversu mikið var tekið af þeim vegna ellilífeyris.

Í g-lið segir: „Í stað fjárhæðarinnar „328.800 kr.“ í 2. málsl. 5. mgr. o-liðar komi: 720.000 kr.“ Hér er lagt til að sérstakt frítekjumark öryrkja vegna lífeyristekna hækki um 140% frá því sem það er nú til samræmis við breytingar á vísitölu heildarlauna opinberra stofnana frá 2008 og verði 720.000 kr. á ári. Frítekjumark lífeyristekna er 25.000 kr. og það hefur ekkert hækkað. Mottóið sem hefur verið gegnumgangandi er að búa til einhverja ákveðna tölu fyrir frítekjumark eða eitthvað annað sem á að vera öryrkjum og ellilífeyrisþegum til góða, en síðan er það látið dankast árum saman og jafnvel áratugum saman og þar af leiðandi verður ekkert úr þessu. Auðvitað á að tengja þetta við t.d. vísitölu heildarlauna opinberra starfsmanna og hækka þetta bara samkvæmt því vegna þess að 25.000 kr. í dag eru ekki þær sömu eftir fjögur, fimm ár, þá er orðið lítið eftir af þeim. Þess vegna er það alveg óskiljanlegt að þetta sé gert svona. Ég hélt að þetta væru mistök en ég er búinn að uppgötva að þetta voru ekki mistök, þetta er viljandi gert. Svo koma þeir upp hvað eftir annað, stjórnarliðar, og segjast ekki hafa hækkað skatta og ekki aukið skerðingar. Það fer ekki á milli mála að þeir hafa gert hvort tveggja.

Í h-lið segir: „X-liður falli brott.“ Lagt er til að fella brott x-lið 7. gr. sem kveður á um svokallað vasapeningafyrirkomulag, þ.e. að lífeyrir almannatrygginga skuli falla niður þegar einstaklingar dvelja á stofnun. Þetta eru alveg fáránleg lög og okkur til háborinnar skammar að þegar feður okkar, mæður okkar, afar og ömmur fara inn á stofnanir þá bara sviptum við þau fjárhagslegu öryggi. tökum af þeim fjárráðin — og gerum þau að hverju, unglingum og hendum í þau vasapeningum? Hverjum datt þetta í hug? Hvernig í ósköpunum getum við látið þetta viðgangast? Þetta er gjörsamlega óskiljanlegt og við eigum að taka þetta út.

Að síðustu er lagt til að fella úr lögum um viðbótarstuðning við aldraða þá reglu að greiðslur samkvæmt lögum megi að hámarki nema 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris. Þarna er ég að tala um búsetuskerðingarnar á ellilífeyri. Það er þyngra en tárum taki að það skuli vera svo örstutt síðan að við samþykktum þetta hér á þingi. Ég var kominn á þing þegar það var samþykkt að finna út hóp einstaklinga sem átti að fá lágmarksellilífeyri en ríkisstjórnin ákvað allt í einu að segja: Nei. Lágmarksellilífeyrir er allt of mikill fyrir þennan hóp. Gefum honum bara 90% af honum, tökum 10% af ellilífeyrinum. Og það sem var mesta afrekið þeirra fyrr og síðar í því máli var að það var aftur sett á krónu á móti krónu skerðing, skerðing sem allir flokkar og meira að segja ríkisstjórnarflokkarnir hafa sagst vera á móti. Þeir settu krónu á móti krónu skerðingu á þennan hóp og ég skil ekki að við skulum ekki nota tækifærið núna, nota tækifærið og taka þennan ósóma út því það kostar eiginlega ekki neitt. Það eru örfáir einstaklingar þarna undir. Hvers vegna í ósköpunum teljum við að það sé sjálfsagt að níðast á þessum örfáum einstaklingum, þessum ellilífeyrisþegum?

Ég sé að tíminn er að renna út en að síðustu vil ég hvetja ríkisstjórnina til að taka tillit til allra þessara breytingartillagna sem hafa komið við frumvarpið og reyna, þegar þau fara virkilega í endurskoðun almannatryggingalaga sem á að stefna að í vor, ég reikna fljótlega með frumvarpi, eða ég skil það þannig að það ætti að koma inn í byrjun maí, að taka almennilega til í þessu kerfi. Það er lágmarkskrafa að þeir taki út allar þessar ótrúlega gildrur sem eru einhvern veginn gerðar til þess, ég veit eiginlega ekki til hvers, vegna þess að kostnaðurinn er, held ég, í sennilega mörgum tilfellum meiri við að reyna að reikna þetta út og fylgjast með því að skerða þetta fólk heldur en að sleppa því. Það er það sem við eigum að gera.

Síðan ætla ég að vona að það verði hlustað á öryrkja. Ég var að koma af málþingi hjá Öryrkjabandalaginu sem hét Satt og logið um öryrkja, þar sem komu fram þau gleðitíðindi, samkvæmt könnun Gallups, að almenningur í landinu er 100% sammála Flokki fólksins og telur að öryrkjar eigi að hafa að lágmarki 389.000 kr. á mánuði. Við lögðum fram frumvarp um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust þannig að það er nákvæmlega í þeim anda sem almenningur í landinu telur að eigi að vera lágmark fyrir öryrkja til að lifa á í dag. En svo var ákveðinn hópur sem er vinnandi í dag sem telur að ef hann lenti í örorku í dag þá þyrfti hann 466.000 kr. skatta- og skerðingarlaust til að lifa af, sem er næsta breyta þar fyrir ofan og verður vonandi einhvern tímann. Það væri alla vega óskandi að ríkisstjórnin hlustaði nú á Öryrkjabandalagið og þessa könnun frá Gallup og tækju sig til og færu að hækka hjá öryrkjum. Síðan var sú mýta að öryrkjum sé að fjölga svo rosalega alveg slegin út af borðinu, þeim fækkar miðað við fjölda þjóðarinnar. Öryrkjar í dag eru rétt um 5% af þjóðinni og eru um 19.000 og stór hópur þeirra er að reyna að vinna þó að allt sé gert til þess að koma í veg fyrir að þeir hafi einhvern hagnað af því. En vonandi fáum við að sjá góðar breytingar, maður hefur oft óskað þess en orðið fyrir vonbrigðum.