Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 85. fundur,  22. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[17:29]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég er á minnihlutaáliti með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur og Guðmundi Inga Kristinssyni. Þar sem Oddný fór mjög vel yfir það nefndarálit ætla ég kannski ekki að endurtaka það sem þar kom fram en mér finnst mikilvægt að ítreka að við erum að fjalla um milliríkjasamninga og hversu mikilvægt það er að það sé skýrt að ekki megi beita milliríkjasamningum um almannatryggingar með íþyngjandi hætti þannig að það leiði til lakari réttar en rétthöfum er tryggður samkvæmt lögum.

Eins og kemur fram í áliti minni hlutans er mikilvægt að framkvæmdarvaldinu sé ekki falið óheft ákvörðunarvald um að víkja frá lögunum. Það er ekki að ástæðulausu að við leggjum áherslu á þennan skýrleika. Mér þykir vont að skilja atriði eftir í lögum til túlkunar hjá Tryggingastofnun ríkisins og það er ástæða fyrir því. Sporin hræða. Það eru bara mjög nýleg dæmi um að Tryggingastofnun hafi reiknað bætur fólks á skjön við lög. Það eru bara örfá ár síðan umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að túlkun Tryggingastofnunar á íslenskum lögum um almannatryggingar og EES-reglugerð hafi verið röng. Afleiðingarnar af þessu voru gríðarlega miklar. Mikill fjöldi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hefur þurft að búa við ólögmætar skerðingar af hálfu ríkisins. Íslenska ríkið hefur ólöglega skert tekjulægsta hópinn á Íslandi um marga milljarða yfir rúmlega tíu ára tímabil. Þarna eru dæmi um einstaklinga sem þurftu að lifa á 100.000 kr. og stundum minna á mánuði og áttu að fá að lifa á þessum launum út ævina. Það segir sig sjálft að það getur enginn lifað á 100.000 kr. Það tók svo mörg ár að leiðrétta kjör þessa hóps. Á meðan hélt ólöglega skerðingin áfram og í ofanálag ákvað ráðherra á þessum tíma að greiða einungis bætur fjögur ár aftur í tímann í staðinn fyrir að sjá sóma sinn í því að bæta öllum þann skaða sem þetta lögbrot að hafði valdið fólki í þau rúmlega tíu ár sem það fékk að viðgangast. Margir fengu aldrei réttlæti, hreinlega vegna þess að þeir lifðu biðina ekki af. Þetta er til skammar. Þetta er smánarblettur á okkur öllum — eða ég ætla ekki að taka þetta á mig reyndar, bara á þinginu, ekki á þinginu einu sinni, bara framkvæmdarvaldinu.

Það er ekkert mál að skýra þetta lagaákvæði, forseti, og koma þannig í veg fyrir svona hentisemislagatúlkun. Það ætti í raun að vera algjört lágmark miðað við þau svik, þann trúnaðarbrest sem hefur átt sér stað í fortíðinni. Ég hreinlega skil ekki hvers vegna við getum ekki farið þá leið að bara tryggja það að lagaramminn sé skýr þegar kemur að þessu.

Markmið frumvarpsins er að gera lífeyriskerfi eldri borgara og örorkulífeyriskerfið gagnsærra, einfaldara og skilvirkara. Einnig kemur fram að það sé undanfari frekari breytinga á kerfunum sem gert er ráð fyrir að verði innleiddar í áföngum á næstu misserum. En vandinn er að þetta frumvarp er ekkert skýrt, það er ekkert mjög gagnsætt og það er bara alls ekki einfalt. En það er kannski ekki skrýtið, almannatryggingalögin eru bara mjög óskýr og mér finnst það vera efni í eiginlega heila aðra ræðu og mögulega marga fyrirlestra að tala um það hversu ólýðræðislegt það er að við búum við svona óskýr og óaðgengileg lög. Þetta eru lög sem fólk í raun og veru stólar á bara til að geta lifað í samfélaginu. Þetta snýr að lífsviðurværi þess. Mig grunar að margir hverjir, ef ekki flestir eigi mjög erfitt með að skilja hver réttur þeirra er í þessu kerfi og það er ótrúlega vont.

Ég efast ekki um að núverandi félagsmálaráðherra vilji láta gott af sér leiða þegar kemur að því að betrumbæta þetta kerfi en ég hef áhyggjur af því, alla vega sem þingmaður, að þegar við erum að fá breytingar til okkar, lögin hingað til okkar í þingið sem löggjafi, að þá sé erfitt að átta sig á heildarsýninni þegar er verið að innleiða þetta í áföngum á þennan hátt. Það er erfitt fyrir okkur að sjá nákvæmlega hvaða vegferð ráðherra er á og þar af leiðandi erfiðara fyrir okkur að fjalla um þetta á einhvern heildstæðan hátt.

Mér finnst staðan í velferðarmálum í dag vera ótrúlega skýrt dæmi um skort á framsýni og heildstæðri stefnumótun um hvernig samfélag við viljum byggja. Það vantar aðeins að súmma út, afsakaðu slettuna, forseti, og skoða heildarmyndina. Hver er okkar framtíðarsýn í velferðarmálum? Hver er hún? Ég ætla að leyfa mér að vera alveg ofurbjartsýn og gefa mér að við sem samfélag sjáum ávinninginn af því að leysa úr læðingi þann gífurlega mannauð sem við búum yfir og skapa jöfn tækifæri og aukið frelsi einstaklinga til að blómstra innan samfélagsins. Ég alla vega held að margir í samfélaginu séu þar, séu að hugsa eftir þessum línum. Vandinn er að ég get ekki séð að ríkisstjórnin sé með sömu sýn, bara alls ekki. Viðunandi framfærsla á ekki að vera ölmusa heldur sjálfsagður réttur allra í samfélaginu, réttur sem gerir þeim sem ekki geta unnið kleift að lifa þrátt fyrir atvinnuleysið og veitir þeim sem geta unnið eða vilja reyna að vinna nauðsynlegt öryggi ef heilsa þeirra bregst eða versnar. Samt búum við við ölmusukerfi þar sem er lág framfærsla, hár þröskuldur, mikið af flóknum skilyrðum og skerðingum. Þetta kerfi ýtir undir fordóma og þessa hugmynd um ölmusu frekar en réttindi.

Þetta er líka svo öfugsnúið af því að viðunandi framfærsla léttir á því yfirþyrmandi álagi sem fylgir því að vera veikur, að þurfa að gefa upp starfsframann sinn og því tabúi sem fylgir því að vera öryrki í íslensku samfélagi, álag sem er að sliga íslenska öryrkja og íþyngja þeim í veikindum þeirra. Við vitum öll hvaða áhrif óöryggi og streita hefur á heilsu okkar. Við vitum það. Samt einhvern veginn höldum við áfram þessu kerfi þar sem stór hópur fólks er fastur í viðvarandi streitu- og óöryggisástandi og þetta er veika fólkið sem við eigum að vera að hjálpa að ná bata.

Ég vona innilega að tiltölulega nýr félagsmálaráðherra hafi einhverja heildarsýn yfir málaflokkinn. En eins og ég sagði áðan þá er erfitt að meta það vegna þess að við erum að fá þetta í þessum bútum. Ég satt að segja skil ekki hvernig við náum einhverjum árangri í þessum málaflokki nema að við endurhugsum almannatryggingakerfið alveg frá grunni með það að markmiði að tryggja öllum skilyrðislaust gólf til að standa á. Það er rökrétt leið til að lýsa þessu. Þá meina ég að tryggja þau sjálfsögðu réttindi að allir nái endum saman. Fæði, klæði, húsnæði, segja félagar mínir í Flokki fólksins og ég tek undir það. Við þurfum að dekka nauðsynjar svo að allir hafi tækifæri til að setja orku í að finna sinn vettvang og blómstra í samfélaginu. Við erum því miður ekki þar. Ég er ekki sannfærð um að við séum að fara þangað í bráð og það þykir mér mjög sorglegt.