Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

vextir og verðbólga.

[11:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er bara fagnaðarefni að fá að tala hérna um kosningaloforð og hvað er óábyrgt og hvað er ábyrgt. Viðreisn hefur selt þá hugmynd að ef við myndum bara taka upp evruna þá myndi þetta allt saman að breytast. En hvað er að gerast í evrulandi í dag? Er verðbólga lægri í evrulandi, t.d. í Þýskalandi? En á Íslandi? Nei. Er atvinnuástandið betra þar en á Íslandi? Nei. Er fólk að verja kaupmátt sinn í evrulandi umfram það sem er að gerast á Íslandi. Nei, það er ekki að gera það. Kaupmáttur í þessum löndum er að hrynja. Hann er kannski ekki að hrynja jafn mikið og í Bretlandi, sem er með aðra sterkari mynt en Ísland, en hann er að hrynja og það er meiri háttar ströggl hjá öllum þessum þjóðum sem eru ekki með frumjöfnuð á árinu 2023 eins og við á Íslandi og þar eru verðbólga og vextir að hækka. Húsnæðismarkaðurinn hefur tekið miklum breytingum og í evrulandi eru ekki eins góðar horfur og eru á Íslandi.

Við getum vel tekið höndum saman og náð aftur tökum á verðbólgunni, varið þau góðu lífskjör sem við höfum byggt upp á Íslandi þar sem kaupmáttur lægstu launa er betri en í evrulandi, þar sem miðgildi launa er hærra en í evrulandi, þar sem hagvöxtur er meiri og sköpum starfa er meiri. Þetta er að gerast á Íslandi umfram það sem er að gerast í evrulandinu. (Gripið fram í.) Og það er algerlega fráleitt að þeir sem hafa talað fyrir því, allt frá því að við vorum hér í fjármálahruninu, að eina leið Íslands út úr vandanum væri sú að ganga í Evrópusambandið og breyta stjórnarskránni, taka upp nýja stjórnarskrá, ella værum við á leið til glötunar, að þeir skuli núna koma upp og segja að hinir hafi haft rangt fyrir sér, þ.e. þeir sem sögðu að við þyrftum ekki að ganga í Evrópusambandið, þeir sem sögðu að það þyrfti enga nýja stjórnarskrá.

Og hver er svo niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að það er bjart fram undan á Íslandi. Í augnablikinu er þensla. Hvað er þensla? Hún er of mikil umsvif? Lágu vextirnir í evrulöndum hafa verið við 0, já, það er alveg rétt. Það er merki um krísu. (Gripið fram í.)