Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

vextir og verðbólga.

[11:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég skil að mönnum sárni þegar maður rifjar upp hvaða valkost var boðið upp á. Ég skil að menn eigi erfitt með sig og þyki það súrt að þurfa að horfast í augu við það að valkosturinn við Sjálfstæðisflokkinn, að ganga í Evrópusambandið og jafnvel breyta stjórnarskránni og svona, hefði aldrei gengið upp. Og þegar spurt er hvað maður vilji segja við það fólk sem hlustaði eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði talað fyrir stöðugleika í efnahagsmálum þá segi ég: Sagan talar sínu máli. Það er nefnilega rétt, sem við bentum á, að við höfum á undanförnum árum upplifað lægsta vaxtaskeið í lýðveldissögunni. En hvað hefur breyst? Veit hv. þingmaður af stríðinu í Úkraínu? Hefur hann tekið eftir því hvernig stríðið í Úkraínu hafði áhrif á orkuverð og rauf allar framboðskeðjur sem endalaust spilltist yfir í verðbólgu í evrulöndum sem aftur skilar sér til Íslands? Fyrirgefið, þingheimur, hv. þingmaður, forseti, Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki varið þjóðina fyrir verðbólguáhrifum af stríðinu í Úkraínu og hefur aldrei haldið því fram að hann gæti gert það. En Sjálfstæðisflokkurinn mun hins vegar bregðast við með réttum hætti til þess að slá aftur niður verðbólguvæntingar og verja þessi bestu lífskjör í Evrópu sem við Íslendingar höfum í dag.