Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[11:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Jafnvel þó að greinin í frumvarpinu sé til bóta þá hefur þó á það verið bent að hún gagnist ekki öllum ungum öryrkjum heldur einungis þeim fámenna hópi sem hefur búsetu hér á landi og er metinn til örorku við 18 ára aldur. Utan falla svo ungir öryrkjar sem eru búsettir erlendis við 18 ára aldur vegna ástæðna sem þeir voru ekki sjálfráða um, t.d. vegna ákvörðunar foreldra sinna, og jafnvel kunna þeir að vera í framhaldsnámi erlendis. Það er mjög mikilvægt að jafnræði gildi þegar við horfum til ungra öryrkja. Þess vegna leggjum við í minni hlutanum til að miðað verði við 25 ára aldur, sem er sama skilgreining og skilgreiningin um hverjir eru ungmenni samkvæmt 1. gr. æskulýðslaga. Ef við myndum miða við 25 ára aldur myndi þessi hópur sem dettur á milli skips og bryggju ekki gera það. Ég hvet þingheim til að samþykkja þessa bót fyrir unga öryrkja.