Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[11:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Þetta sýnir hversu flókið þetta kerfi er. Maður getur komið hingað upp aftur og aftur og bent á gallana. Hér er lagt til að frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna hækki um 140% eins og launavísitala opinberra starfsmanna hefur gert frá 2008. Þetta eru ekki miklar upphæðir en einhverra hluta vegna virðist það ekki falla í kramið. Einhverra hluta vegna virðist alltaf talið að það sé þörf á að hafa þennan hóp einhvers staðar neðar, að þeir eigi alltaf að fá minna en aðrir. Við hljótum að fara að skoða hvers vegna í ósköpunum þetta löggjafarþing hérna á Alþingi hefur þessa þörf, eða ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, fyrir það að klekkja bara á þessum hópum, eldri borgurunum sem hafa byggt upp landið og veiku fólki.