Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

almannatryggingar og félagsleg aðstoð.

533. mál
[11:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég mun ekki samþykkja þessa breytingartillögu en finnst mikilvægt að halda því til haga að með frumvarpinu er verið að samræma og skýra framkvæmd laganna betur. Þeim skuldbindingum sem felast í gagnkvæmum milliríkjasamningum er einkum ætlað að tryggja að áunnin réttindi tapist ekki við flutning einstaklinga milli landa og milli samningsríkja. Samningar eru við fjölda ríkja og þeir eru ólíkir eftir ríkjum og eftir því hvort ríki eru innan eða utan EES og ýmsu fleiru.

Mig langar að nota þetta tækifæri, af því að ég missti af því að gera grein fyrir atkvæði mínu í fyrri atkvæðagreiðslunni, og segja að frumvarpið felur líka í sér ívilnandi frávik fyrir þá sem óska eftir mati á örorku við 18 ára aldur og hafa búið tímabundið erlendis. Eins finnst mér mikilvægt að halda því til haga að þegar ég vísaði til þess sérstaklega hér í upphafi að það væru (Forseti hringir.) ýmsar tillögurnar sem ættu erindi inn í heildarendurskoðunina þá var ég m.a. að tala um (Forseti hringir.) frádrátt vegna fjármagnstekna barna.