Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[13:37]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir andsvarið og þakka henni fyrir það sem mér heyrist, að hv. þingmanni lítist vel á þessa áætlun sem hér liggur fyrir. Í þessari áætlun erum við að nálgast þjónustu við eldra fólk. Við erum ekki í þessari áætlun að nálgast afkomu fólks. Það er önnur vinna í gangi í ráðuneytinu hjá mér, og reyndar þvert á þrjú ráðuneyti, fjármála- og efnahags-, félags- og vinnumarkaðs- og innviðaráðuneytis, þar sem við erum að skoða sveigjanleg vinnulok opinberra starfsmanna. Við hækkuðum síðan auðvitað frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki um áramótin 2020/2021 upp í 200.000 kr. Þannig að ég vil nú meina að við höfum verið að mæta því að hluta sem hv. þingmaður hér nefnir.

Það sem er áhugavert að heyra líka, og ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma með það hér fram, er leikfimin sem hv. þingmaður nefndi. Þetta er eitthvað sem ég myndi gjarnan vilja sjá okkur ná utan um með þeim hætti að íþróttafélögin kæmu meira inn í þetta. Íþróttafélögin hafa verið að sinna börnum í gegnum tíðina og þar er heilmikil þekking sem væri auðvelt að geta nýtt akkúrat fyrir eldra fólk líka. Við erum með tækifæri inni í þessari aðgerðaáætlun til að skoða þetta í tengslum við þær aðgerðir sem snúa að virkni. Ég man nú ekki betur en að íþróttafélögin séu nefnd þar einhvers staðar á blaði líka og ef ekki þá alla vega er það í mínum huga þannig og hv. þingmaður hefur líka vakið máls á því hér.