Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[14:08]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi eins og ljóðskáldið sagði forðum: Allt verður mér ljóði í þessu stælta sólskini. Ég gladdist óskaplega þegar ég heyrði hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur lýsa þessari fallegu sýn sem hún hafði, að þegar eldri borgarinn væri að fara í setustofuna eða borðstofuna þar sem hann byggi með öðru fólki væri hann í raun og veru komin til unglingsáranna sinna því að öll hverfum við aftur á það skeið sem við einu sinni vorum á. Þetta er svona kominn aftur í kommúnuna sem hann var í þegar hann var unglingur. Það er einmitt sú kynslóð sem er orðin gömul í dag sem lifði kommúnutímann.

Það segir líka í öðru ljóði, með leyfi forseta: Þessi hvítvoðungur verður hvíthærður. Hann eignast börn og barnabörn og öll fá þau um síðir fannhvítt hár. Við komum eins og haföldurnar, hvert á eftir öðru, endalaust. Og við munum leggjast til hvíldar, öll þessi hvíthærðu börn.

Þannig förum við aftur til upphafsins og ég held að það sé sælustund þegar þú ferð aftur í kommúnulífið sem þú varst í þegar þú varst unglingur, að það verði tekið vel á móti þér og þér finnist þú eiga heima þar.