Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024--2028.

860. mál
[14:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra framsöguna um þessa tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028. Eins finnst mér sérstaklega mikilvægt að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi komið hér jafnframt til að fylgja málinu eftir í þingsal.

Ég ætla í rauninni ekki að orðlengja mikið um þetta mál en fyrst og fremst er ég hér komin til að fagna því að málið er komið fram og lýsa því yfir að velferðarnefnd tekur fagnandi á móti málinu og þeirri áskorun að fjalla um það og verður mjög áhugavert að fá umsagnir um málið. Eins og fram kemur í greinargerðinni með málinu á aðgerðaáætlun um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk sér rætur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og viljayfirlýsingu sem félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra undirrituðu ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Landssambandi eldri borgara um það að auka samstarf um og varðandi málefni eldra fólks. Þar er auðvitað þverfaglegt samstarf félags- og heilbrigðisþjónustu grundvallaratriði til að fagþekkingin nýtist á hvoru sviði fyrir sig og þannig verði þjónustan eins og best verður á kosið við þennan stækkandi þjóðfélagshóp sem við tilheyrum hér öll von bráðar. Þannig verður hægt að samþætta þjónustu, sinna forvörnum miklu betur og almennri heilsueflingu og þar með tryggja aukna virkni.

Mig langaði líka að nefna það að þetta þverfaglega samstarf, og auðvitað það að þetta mál skuli hafa verið sett sem eitt af áherslumálum í sáttmála ríkisstjórnarinnar, á sér rætur í grasrótinni hjá félögum eldri borgara og í grasrótum stjórnmálaflokkanna. Ég get t.d. vitnað um það að hafa átt mörg uppbyggileg samtöl við félaga í Framsókn og við fólk á förnum vegi um svipaða nálgun og hér er verið að leggja til í uppbyggingu í þjónustu við og með eldra fólki.

Velferðarnefnd hefur fengið að fylgjast lítillega með undirbúningi þessa máls og fékk kynningu frá verkefnisstjórninni sem ráðherra skipaði í júní 2022, verkefnisstjórninni sem Ólafur Þór Gunnarsson leiðir, sem var hér þingmaður á síðasta kjörtímabili og við þekkjum til úr svipaðri vinnu og þessari og sem hefur gefist vel, og velferðarnefndin hefur fengið kynningu frá fulltrúum í starfshópnum og starfsmönnum sem hafa komið að verkefninu.

Mig langaði svo alveg að lokum að nefna tilraunaverkefnin sem ég finn einmitt af samtölum við það fólk sem kannski fyrst vakti máls við mig á þessari nálgun að er mjög spennt fyrir þessum tilraunaverkefnum. Mér finnst mjög mikilvægt að það komist á tilraunaverkefni um framkvæmd þjónustunnar við ólíkar aðstæður í ólíkum samfélögum, ólíkum byggðarlögum, ólíkum þéttbýlis- og dreifbýlisbyggðarlögum.

Að öðru leyti ætla ég að geyma mér efnislega umræðu um málið þangað til í umfjöllun velferðarnefndar og þá í 2. umr. hér í þingsal.