Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

fjöleignarhús.

80. mál
[17:45]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir þetta frumvarp sem mér þykir vera fallegt frelsismál. Það er alltaf gleðilegt þegar falleg frelsismál koma frá hinum ýmsu flokkum á Alþingi. Ég gleðst yfir því. Ég hef lengi verið áhugasöm um að búa til meiri frelsis- og umburðarlyndisramma í kringum dýrin okkar. Þegar ég var í borgarstjórn á sínum tíma þá eyddi ég talsverðu púðri í að ýta á að það væri leyfilegt á þeim kaffihúsum sem það kjósa að hleypa dýrunum með eigendum sínum inn. Það gekk fyrir rest og núna er alla vega eitt kisukaffihús í Þingholtunum, sem ég held að gleðji ansi marga. Ég fagna þessu frumvarpi. Ég skal viðurkenna að ég hef ekki lúslesið það, en ég þykist ná utan um það. Ég tek svo heils hugar undir með hv. þingmanni um að það er ofboðslega sorglegt að sjá hversu erfitt mörgum er gert að fara með dýrin sín inn á þau heimili sem þeim standa til boða og í einhverjum tilfellum eru þetta einu vinir viðkomandi. Í því ástandi sem er t.d. á húsnæðismarkaðnum þá er fyrir marga, og ekki bara eldra fólk, líka ungt fólk, miklu erfiðara að finna t.d. húsnæði út af reglunum eins og þær eru í dag þannig að ég held að þetta geti skipt mjög miklu máli. En við sem aðhyllumst frelsi höfum líka sagt að frelsið er sjálfsagt svo lengi sem þú meiðir ekki aðra og það er kannski óþarfi að gera lítið úr í þeirri stöðu þegar fólk er með alvarlegan astma eða eitthvað slíkt. (Forseti hringir.) Ég vildi kannski bara heyra aðeins frá þingmanninum nákvæmlega hvernig maður finnur út úr því hvenær er í alvörunni ástæða til að setja ekki aðra sambýlinga í þessa stöðu og hvenær ekki.