Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

fjöleignarhús.

80. mál
[17:50]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni aftur fyrir sín svör og tek undir með hv. þingmanni. Þetta rifjar upp fyrir mér umræðuna þegar var verið að skoða þessa heimild um að kaffihús, sem það vilja, gætu hleypt inn þá aðallega hundum með eigendum sínum inn á kaffihúsið. Ég man einmitt eftir umræðu um að þeir sem eru illa haldnir af ofnæmi eru í talsverðu klandri inni á kaffihúsum þar sem þessi eigandi ber með sér þessa ofnæmisvaka bara á fatnaði sínum, án þess að ég vilji í nokkru gera lítið úr þeim þjáningum öllum og ég efast ekki um að þetta sé erfitt oft og skil mætavel að auðvitað er það mörgum erfið tilhugsun að það muni bæta í þarna. Ég held samt líka að það skipti máli að við ræðum kannski hver raunveruleikinn er í því og kannski allt í lagi að nefna líka að dýraofnæmi t.d. er, að mér vitandi, ekki lífshættulegt eins og t.d. hnetuofnæmi eða eitthvað slíkt, þó að ég vilji ekki gera lítið úr vandamálinu. En ástæðan fyrir því að ég vil nefna þetta er sú að ég er ánægð með að frumvarpið setji fókusinn meira á það að við ætlum að nálgast þetta mál eins og þetta sé hægt og í lagi en þó geti húsfélagið brugðist við, réttilega, þegar dýrahaldið er bara ekki ganga upp af því að réttindi þeirra sem virkilega geta ekki verið í þessu sambýli, af hvaða ástæðu sem er, á að virða og raddir þeirra eiga auðvitað að fá að heyrast. Ég segi það hér með að ég styð hv. þingmann í vegferð sinni með þetta frumvarp heils hugar, þakka fyrir þetta fallega frelsismál og óska henni góðs gengis með að koma því áfram.