Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

fjöleignarhús.

80. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Viðari Eggertssyni fyrir sína innihaldsríku og frábæru ræðu. Hann nálgaðist þetta frumvarp á alveg sérstaklega skemmtilegan, opinn og lifandi hátt sem færði manni frábæra sýn á vinina sem gæludýrin okkar eru og hann kom inn á Covid og allt þetta sem sannarlega er rétt. Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því hvað telst vera verulegur ami. Það var voðalega erfitt þegar við vorum að smíða þetta frumvarp að vera með tæmandi talningu á því hvað er umfram það sem eðlilegt þykir í umgengni. Við sjáum meira fyrir okkur að það sé verulegur ami t.d. ef hundurinn þinn mígur alltaf í stigaganginn eða hann er alltaf úti og skítur úti um allt og þú hirðir ekki upp eftir hann en húsfélagið er ítrekað búið að segja: Viltu gjöra svo vel og hirða upp eftir hundinn, þetta gengur ekkert upp. Eða að þú ert með gæludýr og þú sinnir því ekki, skilur það eftir aleitt heima og það geltir frá morgni til kvölds, grætur og geltir og hrópar og kallar og enginn er til að sinna því og enginn er til að róa það þannig að í raun og veru eru íbúarnir í stigaganginum algerlega á tánum af vanlíðan yfir því hvað vesalings skepnan er að ganga í gegnum og hvernig henni líður. Þetta var svona grunnhugmyndin án þess að við gætum mögulega farið að telja allt upp á tæmandi hátt, við getum ekki tæmt það, það er eiginlega ekki hægt. Þess vegna er þetta svona opið, eins og hv. þingmaður réttilega bendir á, og sett kannski frekar í fangið á húsfélaginu að meta hvað er algjörlega komið út fyrir öll velsæmismörk hvað þetta varðar. Ég vona að þetta svari því, þetta er það sem við vorum með í huga með orðalagi greinarinnar sem þingmaðurinn bendir réttilega á.