Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

félagsleg aðstoð.

97. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, heimilisuppbót. Með mér á frumvarpinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Tómas A. Tómasson, Guðmundur Ingi Kristinsson og Jakob Frímann Magnússon.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„Á eftir 1. mgr. 8. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Lífeyrisþegi sem býr með einstaklingi sem ekki hefur náð 26 ára aldri telst ekki hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

2. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að frumvarpið var lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi, 56. mál, en náði ekki fram að ganga og er nú endurflutt sem sagt í þriðja sinn.

Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands um frumvarpið á 152. löggjafarþingi var bent á að uppfæra þyrfti frumvarpið með tilliti til reglugerðarbreytingar sem átti sér stað um síðustu áramót. Tekið hefur verið tillit til þeirrar athugasemdar og texti 1. gr. uppfærður til samræmis við uppfærða reglugerð og tillögu Öryrkjabandalagsins að nýju orðalagi.

Skömmu eftir að frumvarp þetta var lagt fram á 151. þingi, vorið 2021, gerði ráðherra loks langþráðar breytingar á reglugerð um heimilisuppbót sem koma í veg fyrir að heimilisuppbót skerðist vegna námsmanna á aldrinum 18–25 sem búa á sama heimili og lífeyrisþegi. Síðustu áramót var reglugerðinni breytt að nýju og felld var brott krafa um fullt nám. Allt þetta eru frábærar breytingar og það var risaskref stigið þegar þetta skref var tekið og á hæstv. ráðherra heiður skilið fyrir það. En það breytir ekki þeirri staðreynd að betur má ef duga skal. Það eru ekki allir í námi. Með leyfi forseta ætla ég að halda áfram að vísa í greinargerðina með frumvarpinu. „Framangreindum breytingum ber að fagna en fullt tilefni er til að ganga alla leið og tryggja réttindi foreldra að þessu leyti í lögunum sjálfum. Frumvarp þetta myndi lögfesta rétt foreldra námsmanna til að njóta heimilisuppbótar þar til námsmaður nær 26 ára aldri.“ Það er ekki bara reglugerðin sem á að virða heldur erum við að reyna að festa það í lögin þannig að það verði ekki á valdi ráðherra hverju sinni að flakka fram og til baka með þessa reglugerð þó að ég trúi því nú tæplega að það yrði farið að bakka að neinu leyti frá þeim stóra áfangasigri, risaáfangasigri, sem reglugerðarbreyting ráðherrans felur í sér. En með lögfestingu er hægt að tryggja að núgildandi fyrirkomulag verði ekki breytt eins og ég áður sagði. Auk þess gengur frumvarpið lengra en gildandi reglugerð þar eð undanþága frumvarpsins nær einnig til einstaklinga sem ekki eru í námi á aldrinum 18–25 ára.

Löggjafanum ber að tryggja friðhelgi fjölskyldu og heimilis. Bannað er að skerða þá friðhelgi nema með lögum og aðeins ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar einmitt um friðhelgi heimilis. Óumdeilt er að löggjöfin mismunar fjölskyldum á ýmsa vegu og ýmis lagaákvæði stuðla beinlínis að sundrungu og upplausn fjölskyldunnar. Það er sá raunveruleiki sem lífeyrisþegar almannatrygginga mega þola. Það er sá raunveruleiki sem almannatryggingaþegar margir hverjir þurfa að búa við og þola. Ýmis réttindi falla niður um leið og börn ná 18 ára aldri. Við það tímamark verða lífeyrisþegar fyrir verulegum tekjumissi. Líkt og aðrir missa þeir rétt til barnabóta, en einnig missa þeir ýmis önnur réttindi. Barnabætur, barnalífeyrir og mæðra- og feðralaun falla niður. Auk þess fellur niður réttur til heimilisuppbótar ef barn dvelur áfram á heimili einstæðs foreldris. Tekjur einhleyprar tveggja barna móður skerðast um nærri 100.000 kr. á mánuði þegar eldra barnið nær 18 ára aldri. Þá lækkar barnalífeyrir og mæðralaun en heimilisuppbótin skerðist að fullu. Með undanþágu má þó fá réttinn framlengdan um tvö ár til viðbótar ef barn er í fullu námi, en sækja þarf sérstaklega um það.

Það liggur í augum uppi að núgildandi löggjöf brýtur niður fjölskyldur sem ná ekki endum saman án þessarar framfærslu. Til þess að missa ekki réttinn til heimilisuppbótar neyðast margir foreldrar til að vísa börnum sínum á dyr. Þannig má oft gera ráð fyrir að lögheimilisskráning á öðru heimili sé aðeins til málamynda.

Vissulega eru gild rök fyrir því að bætur sem eiga að renna til einstæðra foreldra skuli falla niður þegar börn þeirra ná fullorðinsaldri. Það verður þó að gæta þess að áhrifin verði ekki of íþyngjandi. Það þarf að dreifa álaginu betur og koma í veg fyrir að allir greiðsluflokkarnir skerðist á sama tíma.

Því er lagt til að heimilisuppbót skerðist ekki vegna barns sem býr á heimili foreldris fyrr en það hefur náð 26 ára aldri. Sambærileg undanþága er nú þegar í reglugerð en gerir kröfu um að barn sé í námi eða starfsþjálfun. Öryrkjabandalagið lagði til í umsögn sinni við frumvarpið að áskilnaður um nám yrði felldur niður. Undir það má taka. Margir flakka á milli vinnu og náms, og einnig á milli námsleiða þar til fólk finnur sína köllun. Það er því óþarft að mismuna fólki eftir því hvort það stundar nám eða ekki á þessum mikilvægu mótunarárum. Með því að girða fyrir að heimilisuppbót foreldris falli niður þar til einstaklingurinn nær 26 ára aldri gefst aukið svigrúm fyrir viðkomandi til að ljúka námi, fá vinnu við hæfi og leita að hentugu húsnæði.

Við skulum hreinlega ekki tala um húsnæði og húsnæðismarkaðinn eins og hann lítur út í dag því þá er þessi kona sem hér stendur vís með að fara á flug, sem ég ætlaði alls ekki að gera því ég er búin að fljúga hér seglum þöndum nánast í allan dag í æðsta ræðustóli landsins og þykir jafnvel mörgum nóg komið og jafnvel mér líka. En það breytir ekki þeirri staðreynd að í því árferði sem nú er, er nú er nánast orðinn ómöguleiki fyrir ungt fólk sem ekki er með sterkan bakhjarl að fara út á húsnæðismarkaðinn. Það er ómöguleiki fyrir þau að leigja sér og hvað þá að fara í greiðslumat til að reyna að kaupa sér íbúð. Þetta eru einstaklingar sem hafa einfaldlega engin önnur úrræði en að búa áfram í foreldrahúsum.

Skerðingarreglur sem miða við aldur barna eru til þess fallnar að auka enn frekar á ójöfnuð og líkurnar á því að börn einstæðra öryrkja fái tækifæri til að brjótast út úr fátæktargildrunni sem foreldrarnir búa við eru litlar sem engar. Verði þetta frumvarp að lögum hverfa verstu áhrif slíkra skerðinga og einstaklingnum er gert mögulegt að brjótast út úr viðjum fátæktar.

Frú forseti. Það er ekkert nema fallegt í þessu frumvarpi og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að það verði ekki utan um það tekið af heilum hug nú í þriðja sinn sem ég mæli fyrir því.