Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

biðlistar eftir geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn.

[15:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni. Hv. þingmaður spyr: Hvað þurfum við að gera til að biðlistar hætti að lengjast? Hv. þingmaður kom með ágætistillögu um að taka kjaramálin bara inn í heilbrigðisráðuneytið. Það væri ágætt, þannig að maður hefði þetta bara allt á einni hendi. En þetta er flókið samspil á milli fjármuna, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel úr störfum sínum í fjárlaganefnd, en við þurfum líka fólk til að sinna þjónustunni og þetta spilar saman.

Hér kom hv. þingmaður inn á málefni sem við sinntum lengi ekki mjög vel og þekkingin kannski ekki til staðar en biðlistar tengdir geðheilbrigðisþjónustu á fjölmörgum sviðum, m.a. við börn, hafa lengst og sérstaklega þegar við erum að bíða eftir áliti sérfræðings eða einhvers sem kallar á greiningar og þverfaglega teymisvinnu. Þarna eru fjölmörg atriði sem koma til. Tilvísunum hefur einnig fjölgað og við höfum reynt að leysa þetta í svona tilvísunarkerfi. Það vaknar upp, getum við kallað, grunur um að það sé ADHD eða röskun á einhverfurófi, svo ég taki dæmi og þá þarf að hafa í huga að stundum er tilvísunum vísað frá eða niðurstaðan verður önnur greining. Þetta er flókið. Við erum að eflast í þessu. Við erum líka búin að breyta skipulaginu. Við erum búin að fjölga starfsfólkinu í heilsugæslunni. Við höfum nýverið útvistað samningum, m.a. til sjálfstætt starfandi aðila, og við erum búin að útvista samningum til Janusar heilsueflingar sem er að vinna með endurhæfingu, þannig að við erum að reyna að leita allra leiða til að vinna á þessum biðlistum. Við erum í stöðugu samtali við m.a. samtökin (Forseti hringir.) og við erum að hefja grænbókarvinnu til að ná kannski betri sýn á það hvernig biðlistinn kemur til. (Forseti hringir.) Hann er ekki raunverulega svona langur. Ég skal fara yfir það í seinna andsvari.